Mánudagur 6. júlí 1998

187. tbl. 2. árg.

Eftir aukaaðalfund Alþýðubandalagsins kann að hafa fjölgað í liði „óháðra“ í þingflokki þessa deyjandi stjórnmálaflokks, því Hjörleifur Guttormsson sætti sig ekki við niðurstöðu fundarins. Þar með hefur hinn „óháði“ Ögmundur Jónasson fengið góðan liðsauka og hver veit nema Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson sláist í lið með þeim, en þeir voru báðir afar ósáttir eftir fundinn þótt þeir hafi ekki enn þorað að fylgja Hjörleifi. Raunar virðist tillagan sem samþykkt var um samstarf við aðra vinstri flokka ekki hafa haft stuðning nema þriðjungs þingflokksins og Hjörleifur segist ekki viss um framtíð sína í þessum þingflokki, þannig að ef til vill er þingflokkurinn allur að verða óháður eða jafnvel að klofna og hverfa.

Það hefur löngum verið erfitt fyrir þá sem ekki eru innvígðir í vinstri hreyfinguna að skilja hvað þar fer fram og hvernig skipast í fylkingar og fylkingarbrot. Og það er ekki síður erfitt nú en áður að átta sig á því hvaða merkingu það hefur að vera í tilteknu flokksbroti á vinstri vængnum eða ekki og hvenær menn eru í þingflokki vinstri manna og hvenær ekki. Þannig þóttust menn sjá framan í „óháðan“ Ögmund á umræddum aukaaðalfundi og hann hafði á því skoðun eftir fundinn að niðurstaðan hefði ekki verið til góðs fyrir vinstri menn. Það virðist því engu breyta hvort menn eru í flokkunum eða ekki, þeir taka þátt í innra starfi flokka án tilllits til þess en eru þó með öllu óháðir. Þar með er „hættan“ á klofningi Alþýðubandalagsins og þingflokks þess og „óháðra“ vitaskuld ekki fyrir hendi og engu breytir heldur hvort flokksbrotin og hinir óflokksbundnu bjóða fram einn lista eða fleiri. Þeir verða eða verða ekki í einum þingflokki eða fleirum að kosningum loknum án tillits til þess hvernig framboði verður háttað.
Svo má, verði af sameiginlegu framboði og einhver vinstri maður verður ósáttur við það, kalla það Framboð sameinaðra vinstri manna og óháðra. Þá geta allir tekið þátt og haldið þrefinu áfram. Allir verið í sama flokki, en þó ekki, og allir starfað saman, en þó ekki.

Það skorti ekkert á stóryrðin í umfjöllun fyrir helgi um hugsanlega þýðingu á Windows hugbúnaðinum. Menntamálaráðherra var m.a.s. þeirrar skoðunar að Íslendingar væru beittir „menningarlegu ofbeldi“ með því að þessi hugbúnaður væri ekki íslenskaður. Það er erfitt að sjá hvers konar ofbeldi um er að ræða eða hvaða ástæðu framleiðandi Windows gæti haft til að beita okkur eyjarskeggjana ofbeldi. Skyldi það vera eitthvað óútskýranlegt fólsku- eða hrekkjabragð framleiðandans sem ræður því að forritið hefur ekki verið þýtt? Nei, líklega ekki. Ástæðan er væntanlega sú að það svarar að hans mati ekki kostnaði að þýða forritið, enda kostar þýðingin tugi milljóna króna samkvæmt upplýsingum helsta umboðsaðila forritsins hér á landi.

Staðreyndin er auðvitað sú að þó okkur Íslendingum þyki heppilegt að hafa forrit á íslensku þá eigum við engar kröfur á hendur fyrirtækjum að þýða þau. Enda viðurkennir menntamálaráðherra í öðru viðtali að ákvörðunin sé framleiðandans, því „þetta er þeirra framleiðsla.“ Þess vegna er einmitt ómögulegt að tala um að umrætt fyrirtæki beiti okkur ofbeldi þótt það sjái sér ekki hag í að þýða forritið yfir á okkar tungu.