Sjálfstæðismenn og R-listamenn í borgarstjórn Reykjavíkur deildu hart um það á síðasta fundi borgarstjórnar hvort R-listinn gæti ákveðið að kalla inn Pétur Jónsson í stað Hrannars B. Arnarssonar, sem óskað hefur eftir leyfi frá störfum borgarfulltrúa meðan fjármálaferill hans sætir rannsókn hjá skattyfirvöldum. Sjálfstæðismenn töldu að R-listinn væri bundinn af röð frambjóðenda á lista sínum, þannig að 9. maður tæki sæti ef einhver aðalmannanna forfallaðist. R-listinn taldi aftur á móti að hann gæti valið hvern sem er úr varamannahópnum til aða taka sæti Hrannars og þess vegna væri heimilt að velja Alþýðuflokksmanninn Pétur í stað Hrannars, sem af einhverjum ástæðum var valinn fulltrúi Alþýðuflokksins á listanum.
Nú þarf auðvitað ekki mikinn speking til að sjá, að eina rökrétta niðurstaðan í þessu máli er sú, að þegar kjörinn aðalmaður í borgarstjórn tekur sér leyfi frá störfum þá tekur fyrsti varamaður listans sæti. Þetta er afar einfalt og í samræmi við almennar reglur í hvers kyns félögum, samtökum og opinberum nefndum og ráðum. Ef einhver önnur regla á að gilda, hvers vegna er þá verið að raða fólki í númeraröð á framboðslista? Með því að setja einstakling í 9. sæti en ekki 13. sæti framboðslista er verið að gefa í skyn að meira muni mæða á 9. manninum og hann fái jafnframt betri tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á gang mála. Þetta getur haft áhrif á afstöðu kjósenda þegar þeir ganga að kjörborðinu.
Önnur hlið er til á þessu máli og er hún lögfræðileg og í þeim efnum er niðurstaðan oft ekki alveg jafn augljós og ef aðeins er beitt heilbrigðri skynsemi.
Lög um sveitarstjórnir kveða á um þetta atriði með eftirfarandi hætti (hér eru nýju og gömlu sveitarstjórnarlögin samhljóða þannig að ekki skiptir máli þótt félagsmálaráðuneytinu hafi mistekist að birta nýju lögin með lögboðnum hætti) og segir svo í 24. gr. Sveitarstjórnarlaga:
Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.
Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.
Samkvæmt þessu snýst spurningin um það, hvort R-listinn hafi verið borinn fram af einum samtökum, Reykjavíkurlistanum eða fjórum stjórnmálaflokkum. Á síðasta kjörtímabili var ekki vandamál að svara þessari spurningu. Þá kom beinlínis fram á kjörseðli að R-listinn væri sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista. Samkvæmt því var R-listanum heimilt að gera um það samkomulag í sínum röðum, að t.d. 13. maður tæki við af forfölluðum aðalfulltrúa en ekki 9. maður. Fyrir kosningarnar í vor lagði R-listinn og sérstaklega Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á það mikla áherslu, að R-listinn væri ekki framboð fjögurra flokka heldur væri borinn fram af sérstökum samtökum Reykjavíkurlistanum. Kepptust R-listamenn og borgarstjórinn við að halda þessari túlkun fram og varð það meðal annars til þess að kjörseðli var breytt frá kosningunum 1994 þannig að fram kom að einungis Reykjavíkurlistinn stæði að R-listanum en ekki áðurnefndir 4 flokkar, sem getið var um á kjörseðlinum fyrir fjórum árum. Ef taka á mark á yfirlýsingum R-listafólks og sérstaklega Ingibjargar Sólrúnar fyrir kosningarnar verður að líta svo á að R-listinn hafi aðeins verið borinn fram af einum stjórnmálasamtökum og þar með að 9. maður skuli taka sæti á listanum þegar einn aðalmannanna forfallast, hvort sem er vegna eigin lögbrota eða af öðrum ástæðum. Lögformlega er það líka eina rétta niðurstaðan, ef litið er til þess að R-listafólkið krafðist þess að á kjörseðli kæmi aðeins fram að listinn væri borinn fram af Reykjavíkurlistanum en ekki flokkunum fjórum. Það getur ekki skipt máli um lagalega niðurstöðu í þessu máli þótt allir viti að á bak við R-listann standa fjögur ólík stjórnmálaöfl sem greinir á í flestum veigameiri málum, þótt þau hafi tímabundið komið sér saman um að sameinast gegn Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.
Ingibjörg Sólrún verður að sætta sig við að hún getur ekki haldið því fram fyrir kosningar að R-listinn sé borinn fram af einni heild, einum stjórnmálasamtökum, en eftir kosningar að hann sé borinn fram af fjórum stjórnmálaöflum. Annað hvort hlýtur að vera rétt, og ef hún sagði satt fyrir kosningar er hún að fara með rangt mál í dag, og ef hún segir satt í dag var hún að fara með rangt mál fyrir kosningar. Svo einfalt er málið!
Í ljósi þessa er varafulltrúamálið enn eitt prófið varðandi trúverðugleika Ingibjargar Sólrúnar sem stjórnmálamanns. Hún hefur áður fallið á prófum þess eðlis og virðist ekki koma sterk út úr þessu. Flestum Reykvíkingum er sama um það hvort Anna Geirsdóttir eða Pétur Jónsson kemur í stað Hrannars B. Arnarssonar í borgarstjórn, þótt einhverjir kjósendur hafi kannski talið heppilegra að styðja óflokksbundinn, kvenkyns lækni úr Grafarvogi frekar en gamlan baktjaldaplottara úr Alþýðuflokknum. Borgarbúum á hins vegar ekki að vera sama um að borgarstjóri fari ítrekað með rangt mál og komist upp með að segja það sem hentar fyrir kosningar, án þess að þurfa að standa við þær skoðanir sínar eftir kosningar.