Fimmtudagur 25. júní 1998

176. tbl. 2. árg.

Þessa dagana fer fram í Reykjavík ráðstefna um kalda stríðið. Meðan það stóð yfir máttu sumir vinstri menn, sem nú vilja helst heita félagshyggju- eða jafnaðarmenn, ekki heyra á annað minnst en að miðstýrður áætlunarbúskapur kommúnistaríkjanna stæði fyllilega jafnfætis markaðsbúskap Vesturlanda. Vinstri mönnum fannst að þeir sem héldu öðru fram væru ekki miklir hugsuðir og hefðu lítinn skilning á hinu sovéska kerfi. Ýmsir þessara kappa vörðu kerfið með einum eða öðrum hætti þar til yfir lauk og hafa þrátt fyrir það þótt til þess fallnir að teljast fræðimenn. John Kenneth Galbraith, hagfræðingur við Harvard háskóla, og Paul Samuelson, prófessor við Massachusetts Institute of Technology og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hafa haft mikil áhrif á umræðu um efnahagsmál síðustu áratuga og hefur Samuelson m.a.s. verið mest lesni kennslubókarhöfundur í hagfræði um árabil. Hér að neðan getur að líta sjónarmið þeirra varðandi sovéska kerfið örfáum árum fyrir hrun Járntjaldsins.

John Kenneth Galbraith skrifaði árið 1984: „Bæði tölulegar upplýsingar og almennur borgarbragur sýna greinilega að sovéska kerfið hefur náð miklum efnahagslegum árangri á síðustu árum. … Maður sér það á fólki á götum úti hversu gott það hefur það … þetta sést einnig á veitingastöðum, leikhúsum og verslunum. … Að hluta til skilar rússneska kerfið árangri vegna þess að ólíkt hagkerfum iðnríkja Vesturlanda fullnýtir það starfskraftana.“

Paul Samuelson var ekki síður hugmyndaríkur þegar hann ritaði eftirfarandi texta í útgáfu frá 1985 af hinni vinsælu kennslubók sinni: „Það sem skiptir máli er árangur, og það er engum blöðum um það að fletta að sovéski áætlunarbúskapurinn hefur verið öflug vél til að ná fram hagvexti. … Sovéska módelið hefur sýnt með óyggjandi hætti að miðstýrt hagkerfi er fært um að hagnýta auðlindir til að ná hröðum vexti.“

Enn í dag tortryggja forsprakkar vinstri manna markaðshagkerfið og hafa horn í síðu þess. Þykjast þeir víða sjá „markaðsbresti“ og vilja hafa inngrip hins opinbera eins mikil og mögulegt er miðað við tíðarandann. Þeir studdu miðstýrðan áætlanabúskap eins lengi og nokkur kostur var. Nú ganga þeir eins langt í tortryggni á markaðinn og hægt er. Skyldu þeir hafa réttara fyrir sér nú en þá?