Miðvikudagur 24. júní 1998

175. tbl. 2. árg.

Eitt af því sem fylgir kosningum er mikið magn blaðagreina, þar sem reynt er að sannfæra menn um að kjósa „rétt“. Eins og gefur að skilja eru þessar greinar æði misjafnar að efnistökum, sumir höfundar virðast leitast við að færa haldbær rök fyrir máli sínu meðan öðrum virðist standa nokkuð á sama um hvort staðhæfingar þeirra eru réttar eða rangar, ef þær aðeins vinna málstaðnum gagn. Það gerir slíkum höfundum leikinn auðveldari, að kosningagreinar eru almennt einungis lesnar fyrir kosningar, en eftir kosningar eru þær öllum gleymdar. Kjósandi, sem les blaðagrein á lokasprettinum, hefur ekki alltaf tök á að leita sér betri upplýsinga og tekur því oft þann kost að trúa greininni eins og nýju neti.

Af þessum sökum er oft haft á orði, að rétt sé að líta til baka eftir kosningar og athuga hverju hafi verið haldið fram í baráttunni. Einkum sé mikilvægt að líta til síðustu daga kosningabaráttunnar því þá sé tjaldað því sem menn vilja ekki að andstæðingarnir nái að svara. Vef-Þjóðviljinn hefur því ákveðið að rifja upp eins og eina grein frá lokaspretti borgarstjórnarkosninganna í síðasta mánuði.

Ætli menn að lesa greinar sem þessar með gagnrýnum huga, verður að minnast þess að höfundar eiga misgott með að koma efninu frá sér. Þegar kosningabarátta stendur sem hæst fara óvanir menn oft að skrifa af mikilli ákefð og tilfinningahita. Vill þá kappið stundum bera hugsunina ofurliði og útkoman þá gjarnan önnur en til stóð. En þegar litið er á þá höfunda sem skrifa í blöðin síðasta kjördag, ber svo vel í veiði að meðal þeirra er kunnur rithöfundur, Thor Vilhjálmsson, sem hefur haft atvinnu af ritstörfum undanfarna áratugi og vanur að liggja yfir hverju orði, enda kunnur fyrir knappan stíl og þaulhugsaðan.

Í grein sinni, „Siðbót eða sinubruni“, liggur Thor margt á hjarta. Hann skrifar grein sína til stuðnings Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og mærir hana svo mjög að jafnvel hún sjálf gæti líklega fáu bætt við. Svo víkur Thor talinu að gagnrýni á fjármálaferil efstu manna R-listans og segir að þar hafi menn „brigslað einum frambjóðanda um fésýsluglöp og hæpinn fyrirgang og busl úr erfiðum bernskubrekum.“ Segir Thor að allir viti að „sjáist eitthvað saknæmt í ferli frambjóðandans … þegar slotar skipulögðu moldviðri … vitum við öll … að hann víkur af sviðinu.“ Hér er mjög athyglisvert orðalag hjá Thor. Berlega er reynt að sannfæra borgarbúa um þrennt: 1. Að gagnrýnin á fjármálaferilinn snúi einungis að einum frambjóðanda. 2. Að einungis sé verið að gagnrýna „glöp“, „fyrirgang“ og „busl“ sem séu svo gömul að þau kallist „bernskubrek“. 3. Að málin snúist eingöngu um það hvort „eitthvað saknæmt“ sannast á „frambjóðandann“. Siðferði hans sé óumdeilt.

Þessar kenningar Thors eru vægast sagt hæpnar. Ekki var einungis verið að gagnrýna einn frambjóðanda. Helgi Hjörvar og Hrannar Arnarsson voru báðir gagnrýndir mjög harðlega þó enn hafi einungis annar þeirra hikað við að taka sæti í borgarstjórn. Þá er ljóst, að þó ferill þeirra hafi hafist þegar þeir voru mjög ungir, ekki löngu eftir að þeir urðu fjárráða, telst hann ekki til bernskubreka því að honum lauk ekki eins fljótt og hann byrjaði. Óheimilar skattskuldir þeirra voru til dæmis ekki greiddar fyrr en tveimur vikum fyrir kosningar. Í þriðja lagi voru drengirnir mjög gagnrýndir fyrir það siðferði sem ýmsum þótti fjármálaferillinn benda til. Refsiverður dráttur á skattskilum var alls ekki það eina sem sú gagnrýni snerist um.

Það er svo annað mál að önnur skáldverk Thors en þessi grein eru væntanlega betur unnin. Að minnsta kosti ákváðu borgaryfirvöld nú á dögunum að útnefna hann „borgarlistamann“. Er hann eflaust vel að þeim heiðri kominn og óskar Vef-Þjóðviljinn honum til hamingju.