Helgarsprokið 21. júní 1998

172. tbl. 2. árg.

Fjölmiðlar greindu frá því í liðinni viku Víglundur Þorsteinsson iðnrekandi hefði á morgunverðarfundi Verslunarráðs lýst þeirri skoðun sinni að hækka bæri skatta á landsmenn til að stemma stigu við óhóflegri þenslu í efnahagslífinu. Rökin fyrir þessari tillögu eru gamalkunn. Þau hljóma jafnan á þann veg að ef fólkið í landinu fær meira fé til ráðstöfunar þá eyði það því í nýja bíla, utanlandsferðir og kaup á alls „óþarfa lúxusvarningi“. Þess vegna sé betra að ríkið taki peningana til sín og ráðstafi þeim „skynsamlega“.

Þessi söngur hefur heyrst hér á landi árum og áratugum saman og hefur verið réttlæting aukinna umsvifa ríkisins í efnahagslífinu. Því verður hins vegar tæpast haldið fram með nokkrum rökum, að reynslan styðji þessa skoðun. Vissulega geta menn litið gagnrýnum augum á eyðslu, óþarfa neyslu og óráðsíu margra einstaklinga og forráðamanna einkafyrirtækja og jafnvel fordæmt slíka hegðun. Dæmin um mistök og óskynsamlegar ráðstafanir eru fjölmörg úr þeirri áttinni. Hins vegar getur engin haldið því fram að vörslumenn almannafjár hjá ríki og sveitarfélögum hafi sýnt meiri skynsemi eða ráðdeild. Þvert á móti. Reynslan sýnir að einstaklingarnir eru, þrátt fyrir allan sinn breyskleika, betur til þess fallnir en hið opinbera að ráðstafa fjármunum.

Við þetta má bæta því, að þær skattalækkanir, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum misserum, ná alls ekki að vega upp á móti skattahækkunum, sem átt höfðu sér stað á árunum á undan. Jafnvel eftir að skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar verða að fullu komin til framkvæmda í byrjun næsta árs verða staðgreiðsluskattar einstaklinga enn hærri en þeir voru þegar staðgreiðslunni var komið á fyrir 10 árum. Það verður því alls ekki sagt að Ísland breytist í skattaparadís þótt ríkisstjórnin standi við það sem hún hefur lofað í þessum efnum.

Þrátt fyrir það, sem sagt hefur verið hér að framan, er ástæða til að hafa varann á gagnvart ofþenslu í efnahagskerfinu. Þar skipta aðgerðir ríkis og sveitarfélaga miklu og óhjákvæmilegt er fyrir ráðamenn á þeim bæjum að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að landsmenn glutri niður góðærinu. Árangursríkasta aðgerðin sem þessir aðilar geta gripið til er ekki að hækka skatta heldur að draga sjálfir verulega úr útgjöldum. Með því skapast svigrúm fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að auka umsvif sín án þess að efnahagskerfið „ofhitni“. Auk niðurskurðar er áframhaldandi einkavæðing opinberra fyrirtækja afar mikilvæg í þessu sambandi. Búið er að ákveða sölu á verulegu magni hlutafjár í ríkisfyrirtækjum og önnur söluáform eru líka á teikniborðinu. Mikilvægt er að þegar í stað verði gengið til rösklega til verks á þessu sviði, en því miður hefur meira verið talað en framkvæmt á sviði einkavæðingar á undanförnum árum. Uppgangurinn í efnahagslífinu á að vera hvatning til að hefja aðgerðir, en eins og menn minnast notuðu stjórnmálamenn niðursveiflu í efnahagslífinu árum saman sem afsökun fyrir því að fresta einkavæðingaráformum.