Málfarsráðunaut RÚV skortir ekki bjartsýni. Nú telur hann einsýnt að í stað hins óþjála orðs netið, yfir það fyrirbæri sem á ensku kallast internet, skuli menn taka upp lipra orðið lýðnet. Lesandi Vef-Þjóðviljans er því að vafra á lýðnetinu en ekki netinu. Þetta er til mikilla bóta og gott til þess að vita að skylduáskrift að RÚV er að skila sér jafnt til netverja – afsakið lýðnetverja – sem annarra.
Það hefur verið æði vinsælt síðustu ár að halda fram þeirri skoðun að jörðin sé að hitna af völdum gróðurhúsaáhrifa. Þessi áhrif eiga samkvæmt svokölluðum umhverfisverndarsinnum að stafa af notkun mannskepnunnar á olíu, kolum og þess háttar orkugjöfum. Í grein eftir Ágúst H. Bjarnason rafmagnsverkfræðing í Morgunblaðinu í dag er bent á að önnur skýring sé nærtækari, en hún er að sveiflur í virkni sólar valdi hitasveiflum hér á jörðu niðri. Hann vísar í rannsóknir þess efnis að sveiflur sólarinnar fari mjög vel saman við sveiflur hitastigs hér á jörðinni, en ekki hafi gengið vel að koma kenningum gróðurhúsasinna saman við hitamælingar.
Ágúst, sem heldur úti heimasíðu um þessi mál, segir þó að margt sé háð óvissu í þessu og líklega valdi útblástur koltvísýrings einnig einhverri hækkun, þótt áhrifin kunni að vera minni en margir virðast halda. Hann bendir að auki á að rannsóknir NASA á hitastigi jarðar s.l. 19 ár sýni enga hitastigshækkun, heldur lækkun ef eitthvað er. Þess vegna er taugatitringur, með tilheyrandi alþjóðlegum ráðstefnum og aðgerðum um minnkun útblásturs, sem kosta jarðarbúa verulega lífskjaraskerðingu, heldur sérkennilegur.
En það er ekki svo að þessar efasemdir um gróðurhúsakenninguna séu einhverjar einkaskoðanir Ágústs. Hann vísar, auk margra rannsókna, til nokkurra undirskriftalista vísindamanna þar sem þeir hafa lýst verulegum áhyggjum með það hvernig umræður hafa þróast og að mannkynið kunni að taka á sig verulegar efnahagslegar þrengingar að ástæðulausu vegna gervivísinda. Vafalaust er fátítt að jafn margir vísindamenn taki þátt í undirskriftum af þessu tagi, en þeir telja tæplega 20.000, þ.á.m. 70 Nóbelsverðlaunahafa.