Óvenjuleg tíðindi berast frá meginlandi Kína þessa dagana. Af umræðum um landið að dæma, en í þeim umræðum er sjónum yfirleitt beint að yfirvöldum, mætti halda að frelsi, mannréttindi og lýðræði væru ekki ofarlega í huga íbúanna. Sú virðist þó alls ekki vera raunin, því nýleg þýðing á kínversku á bókinni The Constitution of Liberty eftir F. A. Hayek fór þegar í stað á metsölulista. Alþýða manna virðist hafa mikinn áhuga á kenningum Hayeks nú, en þær sáust fyrst í landinu árið 1962 þegar Leiðin til ánauðar var þýdd á kínversku til að leiðtogar kommúnista gætu kynnt sér hugmyndir andstæðinganna.
Í vefútgáfu Wall Street Journal á þriðjudag var viðtal við Mao Yushi, forsvarsmann Unirule stofnunarinnar í Kína, sem er frjálslyndur hugmyndabanki í hagfræði. Hann telur kenningar Hayeks eiga mjög vel við í Kína í dag og segir þjóðfélagið þar þyrsta í frjálslyndar kenningar á borð við þessar. Hann leggur áherslu á mikilvægi markaðarins og séreignarréttarins og bendir á að í Kína hafi milljónum manna verið fórnað í nafni lýðræðis og vísinda, en það hafi ekki verið fyrr en markaðurinn kom til sögunnar að fólk fór að njóta einhvers lýðræðis og vísinda.
Þegar Mao Yushi er spurður út í skoðanir hans á því að markaðurinn kunni að hafa spillt siðferði og byggist á eigingirni svarar hann því til að eigingirni hafi verið til staðar áður en markaðskerfið var kynnt til sögunnar. Og hann bendir á að hugmyndir sem byggist á því að menn hugsi bara um aðra en ekkert um sjálfa sig gangi ekki upp í raunveruleikanum. Í slíku umhverfi þrífist slæmt fólk best, því það hiki ekki við að misnota aðra. Þetta eru sérstaklega athyglisverð sjónarmið frá manni sem þekkir vel til í sósíalísku kerfi og hefur aðstæður til að bera saman muninn á því og markaðskerfinu.
Annars á svo sem ekki að þurfa að koma á óvart að kenningar Hayeks um takmörkuð ríkisafskipti eigi upp á pallborðið í Austurlöndum nú um stundir. Í ýmsum löndum þar, t.d. Japan, héldu menn að hægt væri að fara einhverja sérstaka leið sem ætti við þar. Menn virtust halda að þar væri hægt að skipuleggja hagkerfið í ríkari mæli en á Vesturlöndum. Nú hefur komið í ljós að þetta á ekki við rök að styðjast og ofstjórn og afskiptasemi hins opinbera færir mönnum ekki frekar traust hagkerfi þar en hér.