Fimmtudagur 18. júní 1998

169. tbl. 2. árg.

Í íslenskum fjölmiðlum kennir ýmissa grasa. Ber oft mikið á beinskeyttum árásum á nafngreint fólk eða jafnvel heilan stjórnmálaflokk. Oft virðist gagnrýnin sett fram af meiri heift en heilindum og þykir ýmsum sem sjálfumglaðir pistlahöfundar útvarpsstöðvanna séu ekki hvað síst iðnir við slíkt. En það eru ekki bara pistlahöfundar sem kveða fast að orði þegar þeir minnast á þá sem þeim er í nöp við. Í dagblöðum birtast nú stundum greinar þar sem nafngreindir menn eru sagðir t.d. „tíkarsynir“ og „rígmontið rembumenni“. Nú kann vel að vera að þar sé réttilega dæmt eða þetta sé eingöngu sagt í „gríni“. Að minnsta kosti hefur ekki vafist fyrir þeim fjölmiðli, sem telur sig þann virðulegasta á landinu, að birta þessar greinar. En ef til vill er þessi þróun öll eingöngu til marks um það að fjölmiðlar muni í framtíðinni láta sig minna skipta hvað þeir birta. En þeir hafa ekki alltaf verið þeirrar skoðunar. Á heimasíðu sinni birtir prófessor Hannes H. Gissurarson nokkrar blaðagreinar, sem honum hefur ekki tekist að fá birtar óbreyttar í ýmsum fjölmiðlum. Í greinum þessum gagnrýnir dr. Hannes ýmsa íslenska fræðimenn harðlega og ef til vill harðlegar en stjórnendur fjölmiðlanna hafa kosið.

Þó mörgum finnist sérkennilegt hvernig sumir eigendur frjálsra fjölmiðla á Íslandi láta pólitíska notkun fjölmiðlanna viðgangast, verða menn að hafa í huga, að eigendunum er það fyllilega heimilt. Ekkert er við því að segja ef eigendur frjálsra fjölmiðla gera ekki athugasemdir þegar stjórnendur þessara fjölmiðla vilja ekki birta tiltekið efni. Slíkt er þeim algerlega frjálst og fráleitt þegar menn sem ekki fá inni með skoðanir sínar þar, tala um óheimila ritskoðun þegar svo á við. Ekki er heldur hægt að gera kröfu um hlutleysi eða „jafnræði“ á slíkum fjölmiðlum. Þannig er eigendum frjálsra fjölmiðla heimilt að ráða eintóma vinstri menn til að ritstýra blöðum, stjórna umræðuþáttum, setjast á fréttir, flytja pistla og taka viðtöl hver við annan.