Miðvikudagur 17. júní 1998

168. tbl. 2. árg.

Það sjálfstæði Íslands sem fagnað er í dag þykir flestum vafalaust sjálfsagt og dettur varla í hug að því hafi verið ógnað eftir að við sögðum skilið við Dani fyrir miðja öldina. Þó hafa ekki allir alltaf verið þeirrar skoðunar að sjálfstæði landsins bæri að verja með tiltækum ráðum gegn erlendri kúgun. Hin milda hönd Dana sem hélt um stjórnvölinn hér á landi áður en það varð sjálfstætt hefði ekki verið fyrirmynd margra þeirra sem vildu koma landsmönnum undir annars konar stjórn en hér hefur tíðkast. Ýmsa dreymdi lengi (og dreymir kannski enn) um að koma okkur undir stjórn eins og ríkti í Sovétríkjunum sálugu, Alþýðulýðveldinu Kína, Albaníu, Kúbu og slíkum „fyrirmyndarríkjum“.

Þetta stjórnarfar, kommúnismi, sósíalismi, félagshyggja eða hvað menn nú vilja kalla það, er tekið rækilega fyrir í Svörtu bók kommúnismans, sem áður hefur verið minnst á hér á síðunum, en um hana fjallar Jakob F. Ásgeirsson í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Í þessari bók kemur m.a. fram að 85-100 milljónir manna hafi látið lífið á öldinni vegna þessa stjórnarfars, sem er enn meira en hinar 25 milljónir sem þjóðernisjafnaðarmenn Hitlers drápu. Þeir, sem merktu sig hamri og sigð, rauðri stjörnu eða því um líku, gerðu athafnamenn að blóraböggli og ofsóttu þá. Hinir, sem gengu undir hakakrossinum, ofsóttu aðallega Gyðinga. Hið sama hefur því einkennt fylgismenn beggja þessara stefna, þeir hafa fundið menn „seka“ fyrir að tilheyra tilteknum hópi, en ekki fyrir raunverulega glæpi sem mennirnir höfðu framið.

Það sem í seinni tíð hefur hins vegar skilið þá að er að þeir sem aðhylltust skoðanir Hitlers hafa (réttilega) verið fordæmdir og aldrei átt uppreisn æru í stjórnmálum. Hinir, sem stutt hafa sjónarmið Leníns, Maós, Stalíns og félaga, hafa aftur á móti þótt eiga fullt erindi til hinna æðstu metorða. Og margir hér á landi hafa gengið sig gegnum fjölda skósóla á leið til og frá Keflavík í von um að með því tækist þeim að hrekja varnarliðið úr landi og koma okkur úr varnarsamvinnu vestrænna lýðræðisríkja. Þetta gerðu þeir jafnvel á meðan Sovétríkin voru veruleg ógn við frelsi landsins og síst var fyrirsjáanlegt hvor hefði betur í köldu stríði austurs og vesturs. Allan tímann hafa fjölmargir þessara manna starfað á Alþingi, gegnt ráðherraembættum og fulltrúa þeirra hefur jafnvel tekist að smeygja sér ofan í þægilegan stól forseta landsins.