Fátítt er að skattar séu lækkaðir og að skattkerfið sé gert jafnara og réttlátara. Við erum t.d. með hátt og lágt virðisaukaskattsþrep í stað þess að láta eitt yfir alla ganga. Við mismunum skattgreiðendum líka með hátekjuþrepi ofan á venjulega tekjuskattshlutfallið og við mismunum bílakaupendum með mismunandi gjöldum fyrir mismunandi bíla. Allt ætti þetta að vera jafnað ef áhugi er á því að hafa skattkerfið sem minnst ranglátt.
Þess vegna er gleðilegt að nú í sumar verður aflagt sérstakt 25% vörugjald á byssur og skotfæri, en það hefur hingað til mismunað þeim sem áhuga hafa á skotfimi og skotveiðum. Helsti baráttumaðurinn fyrir þessari breytingu var alþingismaðurinn Kristján Pálsson og vonandi er þetta vísbending um að hann hyggist snúa sér almennt að lagfæringum skattkerfisins eins og hér að ofan eru nefndar.
Eins og kunnugt er leggst ofurtollur á erlent grænmeti þegar hið íslenska kemur á markað. Verð vörunnar hækkar m.ö.o. þegar framboð eykst og er það afar sérstök hagfræði. Þeim sem heyra af svona löguðu dettur vafalaust í hug að hérlendis sé vitlausasta kerfi sem um getur í landbúnaði, en þar kann þeim að skjátlast, því við eigum í höggi við sérfræðinga Evrópusambandsins. Þeim hefur tekist að halda landbúnaðinum í Evrópu á gjörgæslu styrkja- og verndunarkerfis og nýjustu aðgerðirnar eru þær að til stendur að auka niðurgreiðslur til vínræktenda um þriðjung. Önnur vínræktarlönd telja eðlilegra að vínrækt sé rekin eins og hver annar atvinnuvegur, en skrifbáknið í Brussel kærir sig ekki um að völd þess verði minnkuð með þeim hætti.