Helgarsprokið 7. júní 1998

158. tbl. 2. árg.

Dómsdagsspár vegna umhverfismála eru enn afar vinsæl tómstundaiðja þótt nokkuð hafi dregið úr þeim upp á síðkastið. Ferðalangur Seðlabankans, Steingrímur Hermannsson (sem er ekki bróðir Sverris Hermannssonar, ferðalangs Landsbanka), lét sig hafa það að nota tækifærið þegar hann ávarpaði nýstúdenta Menntaskólans í Reykjavík við útskrift á fimmtudag að hræða þá með heimsendaspám. Einn þeirra spádóma sem hvað vinsælast er að hrella fólk með er að hnötturinn okkar sé að hitna úr hófi og að hér verði loks óbyggilegt af þeim sökum. Allt á þetta að vera mannskepnunni að kenna, en sumir halda því fram að útblástur ýmissa tækja sem hún hefur komið sér upp til að einfalda lífið muni loks ganga af henni dauðri. Þessar mögnuðu kenningar eru svo sem studdar afar veikum rökum, en þó má hugleiða hvað kynni að gerast ef einhver hækkun hita yrði af manna völdum á næstu öld.

Samkvæmt nýjum skrifum Thomas Gale Moore hjá Hoover stofnuninni, sem gefin hafa verið út á vegum Cato stofnunarinnar, er alls ekki ástæða til að óttast ef af þeirri hækkun hita verður sem nefnd á vegum S.Þ. hefur spáð að geti orðið (2°C á næstu öld). Þessi spá gerir ráð fyrir að hitinn aukist aðallega á nóttunni og á veturna og meira því nær sem dregur pólunum. Megnið af starfsemi fólks væri óbreytt þrátt fyrir þessa hækkun hitans, en sparnaður vegna minni samanlagðs kostnaðar við hitun og kælingu á umhverfi okkar yrði verulegur.

Auk þess má segja að ekki væri ónýtt að njóta þeirra auknu ávaxta sem gróðurinn mundi færa okkur ef af aukningu koltvísýrings og hækkun hita yrði. Ástæðan fyrir þessum aukna vexti er sú, eins og menn vita eftir líffræðitíma í grunnskóla, að plöntur nærast á koltvísýringi en gefa frá sér súrefni. Og rannsóknir hafa sýnt að langflestar plöntur dafna betur ef koltvísýringur er aukinn frá því sem nú er í andrúmsloftinu.

Að öllu samanlögðu væri því til bóta að mati Moore ef svo ólíklega færi að heimurinn hitnaði af manna völdum. Eini verulegi ókosturinn við hugsanlega aukinn hita væri hækkun yfirborðs sjávar. Sú hækkun væri þó það lítil að kostnaðurinn við að koma í veg fyrir að sjórinn gengi á land væri ekki nema lítið brot af ávinningnum á öðrum sviðum. 50 ára stúdentinn Steingrímur getur því rólegur látið af því að hræða fólk með hryllingssögum um framtíðina. Hrollvekjur og draugasögur voru ef til vill ágæt dægradvöl í baðstofum til forna en eru orðnar heldur leiðigjarnar í seinni tíð eftir því sem þær hafa orðið ótrúlegri.