Laugardagur 6. júní 1998

157. tbl. 2. árg.

Viðskiptahalli okkar gagnvart útlöndum hefur nokkuð verið til umfjöllunar að undaförnu enda streyma nýir bílar til landsins og stórar vöruskemmur eru teknar undir sölu á heimilistækjum svo allir komist að og fáir verði undir í troðningnum. Yfirleitt er viðskiptahallinn litinn hornauga og fréttamenn kalla á fjármálaráðherra og seðlabankastjóra og spyrja hvort ekki eigi að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Í nýlegri skýrslu frá Cato stofnuninni er rætt um langvarandi viðskiptahalla Bandaríkjanna við útlönd. Þar kemur fram að viðskiptahalli þarf ekki að þýða að innlend framleiðsla sé á undanhaldi og atvinnutækifærum að fækka. Þvert á móti virðist innlend framleiðsla vaxa og atvinnuleysi minnka þegar viðskiptahalli eykst. Þannig hefur hagvöxtur að jafnaði verið 50% meiri þau ár sem viðskiptahalli eykst. Í skýrslunni er einnig bent á að margir hafi á sínum tíma spáð því að útflutningslöndin Japan og Þýskaland myndu stinga Bandaríkin af í efnahagsmálum þar sem þau byggðu mjög á útflutningi. Engu að síður glíma bæði Japan og Þýskaland nú við vandamál eins og lítinn hagvöxt og aukið atvinnuleysi.

Í lokaorðum skýrslunnar segir svo: „Það er innflutningur en ekki útflutningur sem gerir lífskjör svo góð í Bandaríkjunum. Útflutningur einn og sér er lítils virði. Útflutningur án innflutnings er eins og vinna án launa

Jólasveinarnir voru enn á ferðinni á dögunum að úthluta eigum landsmanna. Það er mesta furða hversu uppteknir þeir eru á miðju ári, en að þessu sinni voru þeir í gervi stjórnarmanna í Menningarsjóði útvarpsstöðva og úthlutuðu 80 milljónum króna. Tvær milljónir fengust í verkefnið „Land jólasveinanna“ og þarf líklega ekki að koma á óvart að jólasveinar hafi samúð með slíku. Jólasveinar af þessu tagi virðast seint ætla að átta sig á að fé er betur komið í vösum eigenda þess en annarra og að eðlilegra er að eigendur þess verji því en úthlutunarnefndir hins opinbera.