Síðastliðinn föstudag lést Barry Goldwater. Goldwater hefur verið nefndur einn af feðrum nútíma íhaldshreyfingar í Bandaríkjunum. Þótt frjálshyggjumenn hafi ekki getað verið sammála honum í einu og öllu, hóf hann til vegs og virðingar á ný mörg þeirra gilda sem fjálshyggjumenn hafa barist fyrir. Goldwater bauð sig fram til forseta fyrir repúblíkana árið 1964 gegn Johnson, einhverjum óheiðarlegasta stjórnmálamanni sem náð hefur völdum í lýðræðisríki. Hann tapaði eftir mjög svo óvægna kosningabaráttu, þar sem fjölmiðlar tóku afstöðu með arftaka Kennedys, sem þá var nýlátinn og enn í dýrlingatölu.
Barry Goldwater var undarlegur stjórnmálamaður – stjórnmálamaður sem sagði það sem hann meinti og meinti það sem hann sagði. Goldwater trúði á frelsi einstaklinganna og séreignarréttinn. Hann trúði á heiðarleika en ólíkt mjúkmálum lýðskrumurum eins og Bill Clinton fékk hann aldrei dýrlingsstimpil á sig. Ástæðan er sú að hann trúði á frelsi einstaklinganna til að leita eigin hamingju ekki frelsi stjórnmálamanna til að gera eignir borgaranna upptækar og dreifa til þrýstihópa í skiptum fyrir atkvæði.
Goldwater laut aldrei flokksaga og enn síður laug hann eða lá á skoðun sinni til að hlífa einstaklingum úr eigin flokki. Það er athyglisvert að hafa þetta í huga nú þegar ýmsir vinstrimenn reyna að bera blak af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna margsögli hennar í Arnarsson og Hjörvar málinu og segja jafnvel að hún sé hæf til að gegna embætti borgarstjóra eftir trúnaðarbrest hennar við borgarbúa. Goldwater hlífði alltaf frekar eigin samvisku en samflokksmönnum sínum. Hann kallaði Nixon mesta lygara í heimi og sagði að Jerry Falwell, sem vildi troða trúarhugmyndum sínum upp á samborgara sína með stjórnvaldsaðgerðum, ætti skilið spark í rassinn Hann sagði þekkingarleysi Reagans á notkun peninganna í Iran-Contra málinu stafa annaðhvort af vanhæfni eða lygum. Hvað skyldi hann hafa sagt um menn sem sviku undan skatti?
Goldwater var aldrei hræddur við að taka afstöðu með frelsi og umburðarlyndi. 1993 kom hann mörgum á óvart með því að taka afstöðu með því að samkynhneigðum yrði leyft að vera í hernum. Hann varaði fólk við óumburðalyndri íhaldsstefnu sem Pat Buchanan boðar og lýsti yfir að hann vildi Colin Powell fyrir forseta. Fræg er saga af honum úr forsetabaráttu hans 1964 er hann var á kosningafundi í landbúnaðarhéraði með repúblíkönum. Eins og vanalega voru niðurgreiðslur til landbúnaðar ofarlega á baugi. Menn álitu almennt að Goldwater væri á móti þeim. Eldri maður stóð þar upp og sagði: Goldwater, til að vinna verður þú að segja amerískum bændum að þú teljir þá eiga rétt á góðri afkomu. Goldwater svaraði: Ég trúi ekki að þeir eigi rétt á henni fremur en aðrir, en ég trúi að þeir eigi rétt á að reyna að afla sér hennar, alveg eins og aðrir.
Einkunnarorð Barry Goldwaters voru: Einstrengingur til varnar frelsinu er engin synd og hófsemi í leit að réttlæti er engin dyggð. Það væri óskandi að fleiri stjórnmálamenn hefðu bein í nefinu til að gera þessi einkunnarorð að sínum.