Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður Þjóðvaka gerir þessa dagana harða hríð að Finni Ingólfssyni viðskiptaráðherra vegna ríkisfyrirtækisins Lindar sem allir virðast voða hissa á að hafi verið rekið með tapi. Fyrir síðustu kosningar lagði Ásta mikið upp úr því að fá sæti við hlið Finns á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þegar Ólafur Örn Haraldsson hafði betur í baráttunni um að vera bakhjarl Finns á framboðslistanum varð Ástu svo mikið um að hún gekk úr Framsóknarflokknum og til liðs við Þjóðvaka.
Ef marka má viðbrögð Ástu og annarra sjálfskipaðra siðapostula á vinstri vængnum við Arnarssonar og Hjörvar vandanum í borgarstjórn er ekki líklegt að Ásta segði mikið vegna Lindarmála hefði hún hreppt sætið góða hjá Framsókn.
Í DV um helgina er viðtal við Helga Hjörvar oddvita R-listans. Helgi lagði mikla áherslu á það fyrir kosningar að R-listinn hefði framtíðarsýn fyrir Reykjavík. Í viðtalinu er þó hvergi minnst á framtíðarsýn og yfirleitt ekkert á pólítík. Það er engu líkara en að vinstri menn þori ekki lengur að viðra skoðanir. Ef til vill átta þeir sig á því að það er ekki vænlegt til árangurs að boða vinstri kenningar. Innantóm auglýsingamennska er orðin þeirra eina von í stjórnmálabaráttunni.
Vinstrimenn á Ríkisútvarpinu hafa tekið afar illa athugasemdum um hlutdrægan fréttafluting stofnunarinnar. Þeir eru að vonum hræddir um að fólki blöskri misnotkunin og loks komi að því að ríkið dragi sig út úr fjölmiðlun. Einn þeirra sem amast hefur við gagnrýni á misjafnan fréttaflutning af R- og D-lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar er útvarpsráðsmaðurinn Gissur Pétursson. Gissur situr í útvarpsráði fyrir Framsóknarflokkinn og vill auðvitað standa vörð um stöðu framsóknarmanna í borgarstjórn. En honum er líklega ekki síður í mun að mikið og vel verði fjallað um gamlan framsóknarmann og nú fulltrúa krata, Helga Pétursson, en þeir munu synir sama Péturs.