Vinstri menn gera eitt og annað til að ná endurkjöri í Reykjavík. Jóhanna Sigurðardóttir gengur fram fyrir skjöldu – blóðug upp fyrir haus eftir að hafa komið þremur bankastjórum á eftirlaun í mikilli siðvæðingarherferð – og ver Hrannar Arnarsson sem gerst hefur sekur um það sem fyrrum heilagri Jóhönnu hefur hingað til þótt rúmlega ámælisvert. Væri Hrannar svo ólánsamur að sitja á lista sjálfstæðismanna er næsta víst að Jóhanna hefði farið fram á skilyrðislausa afsögn hans. En kosningastjóri Jóhönnu þarf vitaskuld ekki að lúta sömu siðalögmálum og aðrir landsmenn.
Sigrún Magnúsdóttir, sem ber þann kross að hafa lent á milli Arnarssonar og Hjörvar í prófkjöri R-listans, nýtur þeirrar undanþágu ein Íslendinga að fá að hafa annað lögheimili en eiginmaður hennar, sem er Páll Pétursson bóndi á Höllustöðum 2. Þau eru eina fólkið í þjóðskrá með skráninguna gift(ur), en maki annarsstaðar, en hvers vegna skyldu framsóknarmenn svo sem þurfa að sæta sömu reglum og aðrir.
Í gærkvöldi var sýndur danskur þáttur í Ríkissjónvarpinu um hugsanlegar breytingar á hafstraumum vegna gróðurhúsaáhrifa sem hafa verið í fréttum undanfarin misseri. Í þættinum var rætt við nokkra vísindamenn sem starfa að rannsóknum á loftslagi og hafstraumum. Var athyglivert að heyra hve varkárir þeir voru í orðum sínum um þessi mál. Er það mjög ólíkt þeim fréttum sem fjölmiðlar færa okkur. En oft á tíðum virðist sem kenningar verði að staðreyndum eftir að fréttamenn hafa niðursoðið viðtöl sín við vísindamenn. Eitthvað sem er hugsanlega mögulegt að mati vísindamanna verður að staðhæfingu í fyrirsögn fréttar. Ýmis umhverfisverndarsamtök eiga einnig þátt í því að hræða fólk með kenningum sem vísindamenn eru rétt að byrja að velta fyrir sér.
Það athyglisverðasta í þættinum tengist þó Ólafi Ragnari Grímssyni forseta vorum en hann spáði því í áramótaávarpi sínu að íshella legðist yfir landið í náinni framtíð. Af því að dæma sem fram kom í þættinum er heldur farið að hitna undir þessari íshellukenningu. Ólafur getur því sennilega gleymt því að hann varðveitist í heilu lagi í íshellunni og verði grafinn upp í framtíðinni eins og frosinn loðgrís.