Hvort sem R-listi eða D-listi fá fleiri atkvæði upp úr kjörkössunum í kvöld og nótt er óhætt að segja að hin mjallhvíta ímynd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur fengið á sig nokkra bletti í kosningabaráttunni. Viðbrögð hennar vegna mála Helga Hjörvars og Hrannars B. Arnarssonar hafa vakið mikla furðu enda var Ingibjörg þekkt fyrir að spara ekki stór orð um siðferðiskröfur til stæðilegra karlmanna, eins og hún kallaði þrjótana fyrir nokkrum árum. Nú hefur hins vegar komið í ljós að stóru orðin eiga ekki alltaf við, a.m.k. ekki þegar frambjóðendur R-lista eru annars vegar.
Í umræðuþætti í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi kom svo í ljós að Ingibjörg þolir lítt mótlæti. Í byrjun þáttarins hélt Árni Sigfússon því fram að Ingibjörg hefði sett fram hugmyndir um flugvöll á Geldingarnesi. Ingibjörg sagðist aldrei hafa verið með slíkar hugmyndir. Þá dró Árni upp blaðaviðtal við Ingibjörgu þar sem hún sagði að hún gæti vel hugsað sér flugvöll á Geldingarnesi! Er fátítt að stjórnmálamenn séu gripnir glóðvolgir á þennan hátt í beinni útsendingu. Það sem eftir lifði þáttarins átti Ingibjörg erfitt uppdráttar og má segja að það hafi viljað henni til happs að í þættinum voru einnig herra ókeypis og herra áttatíuþúsund til að drepa umræðum á dreif.