Menn kunna að velta því fyrir sér hvað það er sem gert hefur að verkum að umræður vegna kosninganna í Reykjavík hafa meira snúist um einstaka frambjóðendur en málefni. Tvær skýringar koma helst til greina. Hin fyrri er auðvitað sú að annað stóru framboðanna býður upp á framboðslista sem á eru menn með hæpna fortíð í viðskiptum og fólki líst ekki á að þeir taki við fjármálum borgarinnar. Sú fortíð hlaut því að verða rædd.
Hin skýringin er sú að margir sjá lítinn pólitískan mun á þeim málum sem listarnir leggja mesta áherslu á og þá skipta persónurnar meira máli. Að vísu leggur D-listi áherslu á að lækka skatta á meðan R-listi hefur hækkað þá og D-listi er heldur frjálslyndari en R-listi, vill t.d. að foreldrar ráði hvort peningarnir, sem varið er til barnapössunar, fari í vasa foreldra eða annarra. En í mörgum málum eru pólitískar áherslur listanna svipaðar og þeir ætla báðir að gera flest fyrir flesta borgarbúa. Kostnaðurinn mun að vísu ekki eiga að vera greiddur úr vösum frambjóðenda listanna heldur borgarbúa sjálfra og gerir það loforðin um öll útgjöldin heldur leiðari.
Oft láta umhverfisverndarsinnar eins og kröfur þeirra séu hafnar yfir alla umræðu. Þannig hefur það lengstum verið um þá skoðun þeirra að gróðurhúsalofttegundir sem maðurinn gefur frá sér muni valda meiriháttar hörmungum verði ekkert að gert. Ýmsir hafa þó andmælt umhverfisverndarsinnum í þessu máli og bent á að margt sé óljóst um áhrif mannsins á andrúmsloftið og hvort þau áhrif verði til góðs eða ills.
Kyoto samkomulagið frá því í desember er auðvitað heilög kýr í hugum umhverfisverndarsinna. Það eru hins vegar ekki allir jafnánægðir með það og nú hafa 18.100 vísindamenn í Bandaríkjunum sent stjórnvöldum áskorun um að hafna Kyoto samkomulaginu. Í áskoruninni segir:
Við hvetjum ríkisstjórn Bandaríkjanna til að hafna Kyoto samkomulaginu sem gert var í desember 1997 og öðrum áþekkum tillögum. Samkomulagið er slæmt fyrir umhverfið, hægir á vísinda- og tækniframförum og getur valdið heilsu og velferð fólks skaða.
Engar haldgóðar vísindilegar staðreyndir benda til þess að útblástur koltvísýrings, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda af manna völdum valdi eða muni valda í næstu framtíð hörmulegum breytingum á andrúmsloftinu. Að auki bendir margt til þess að aukinn styrkur koltvísýrings á andrúmsloftinu geti verið hagstæður fyrir plöntur og dýr.