Þriðjudagur 19. maí 1998

139. tbl. 2. árg.

Það er hálf einkennilegt hvernig vinstri menn hafa brugðist við þeim athugasemdum sem tveir Reykvíkingar settu fram á dögunum um hæfi Helga Hjörvar og Hrannars B. Arnarssonar til að taka að sér stjórn Reykjavíkurborgar. Að vísu má segja vinstri mönnum til nokkurrar vorkunnar að ekki er víst að margar haldgóðar varnir hafi boðist en engu að síður er lítilmótleg sú vörn þeirra að tala eingöngu um að fyrir borgarbúunum tveimur hafi einungis vakað að þjóna hagsmunum Sjálfstæðisflokksins, þeir séu ábyggilega á vegum Sjálfstæðisflokksins og þess vegna sé allt ósatt sem þeir segja. Staðreyndin er sú, að margt annað kann að vaka fyrir mönnum en að reka erindi einhvers stjórnmálaflokks. Hvaðan kemur stórhneyksluðum pennum vinstri manna heimild til að ákveða hvaða ástæður búa að baki hjá þeim er gagnrýnt hafa Helga Hjörvar og Hrannar Arnarsson? Og, ef út í það er farið, hvaða máli skipta ástæðurnar? Er útilokað að almennir borgarar geri kröfu um að frambjóðendur vinstri manna hafi nokkurn veginn hreinan skjöld? Margir hafa nefnilega haldið fram að margt megi betur fara í stjórnmálunum. Sú hugsun var meðal annars orðuð mjög skýrt og einarðlega á málþingi um siðferði og stjórnmál sem haldið var fyrir fáum misserum:

„Takist okkur að siðvæða kerfið munum við siðvæða stjórnmálamennina. Siðlausir stjórnmálamenn styðja sig að mörgu leyti við siðlaust almenningsálit. Þeir eru sprottnir úr ákveðnum jarðvegi og hann þarf að plægja og sá í að nýju. Þær siðareglur sem okkur hefur verið kennt að halda í heiðri almennt í lífinu eiga að vera meginreglur stjórnmálanna og þá getum við dæmt þegar stjórnmálamenn framtíðarinnar koma fram og segja: „Ég er ekki þrjótur.“ Best væri þó auðvitað að þeir þyrftu ekki að taka það fram.“
Hér talar áhugamaður um bætt siðferði í stjórnmálum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, eigandi R-listans.

Vegagerð hefur lengstum verið í höndum ríkisins hérlendis og það verður ekki fyrr en í sumar sem einkaðilar fara að selja aðgang að veginum sem þeir hafa lagt í göngum undir Hvalfjörð. Það hefur auðvitað einn augljósan kost að einkafyrirtæki standi að vegagerð og rekstri vega. Þá greiða þeir sem nota vegina fyrir þá og vegagerðin er ekki háð hrepparíg og hrossakaupum í þingsölum. Vegagerð „á vegum“ einkaaðila er þekkt víða um heim og um það má m.a. lesa í bókinni Roads in a Market Economy þar sem rekstur á vegum hins opinbera og einkaðila er borinn saman. Höfundurinn, Gabriel Roth, kemst að þeirri niðurstöðu að einkaaðilar standi betur að þessum málum en hið opinbera. Þess má geta að James M. Buchanan ritar formálsorð og Milton Friedman lokaorð. Bókin fæst hjá Laissez-Faire Books.