Mánudagur 18. maí 1998

138. tbl. 2. árg.

„Það er ekkert í þessari sögu sem þolir ekki dagsins ljós,“ sagði Hrannar B. Arnarsson frambjóðandi R-listans í fréttum Stöðvar 2 í gær, aðspurður um eigin fjármála- og viðskiptaferil. Hann hefur líka sagt að þessi ferill hans sé honum mikill „fjársjóður“, þannig að í ljósi þess hefði verið eðlilegt að hann hefði greint frá ferlinum fyrir prófkjör R-listans. Hann hefði a.m.k. getað látið ógert að fara jafn frjálslega með staðreyndir á heimasíðu sinni fyrir prófkjörið og raun ber vitni, en þar stendur orðrétt: „Um tvítugsaldur setti [Hrannar] á stofn fyrirtæki á sviði markaðs- og útgáfumála og hefur síðan starfað að uppbyggingu þess ásamt samstarfsmönnum sínum.“ Annað kemur ekki fram um þátttöku Hrannars í atvinnulífinu.
Nú er Hrannar ekki með þessu fyrsti og eini frambjóðandi á Íslandi sem fegrar eigin verk fyrir prófkjör, en þó má telja víst að sjaldan hafi frambjóðendur gengið jafn langt í að fela eigin feril.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki alltaf tekið brot gegn skattalögum jafn mjúkum höndum og nú í málum Helga Hjörvar og Hrannars B. Arnarssonar. Á Alþingi 24. nóvember 1992 sagði Ingibjörg þegar hún ræddi undanskot frá skatti: „Ég held að við höfum öll heyrt það þegar við förum um bæinn að fólk spyr hvernig í ósköpunum standi á því að stæðilegir karlmenn [!] og vel stöndugir með vinnukonuútsvar sem aka um á BMW eða Volvo, búa í fínum húsum og ganga í dýrum tegundum af fötum — hvernig stendur á því að þeir sleppa alltaf? Hvernig komast þeir upp með þetta? Þetta er auðvitað gömul spurning. Það er búið að spyrja hennar árum saman og mönnum finnst hún kannski ekkert merkileg. Þeim finnst hún kannski einfeldningsleg, en þessi spurning er sígild. Það er löngu tímabært að tekið sé á þessu sem er auðvitað ekkert annað en skattsvik, sem er ekkert annað en stuldur úr okkar sameiginlegu sjóðum, að það sé tekið á því af einhverri hörku

Í sambandi við umræðu um fjármálaóreiðu frambjóðenda R-listans er ekki úr vegi að geta orða Páls Péturssonar, ráðherra sveitarstjórnarmála, sem sagði í ræðu á Alþingi hinn 6. mars 1990: „Rekja má slóð sömu einstaklinganna í gegnum hvert gjaldþrotafyrirtækið af öðru þar sem skuldum hefur verið safnað og fyrirtækin síðan gerð gjaldþrota. Þannig hafa fjölmargir grandalausir lánardrottnar tapað stórfé.“