Það er ekki ofsagt að pólítíkusar eru fyrirferðamiklir í fréttum og fjölmiðlum almennt. Þeim þykir sjáflsagt að mæta á hverju kvöldi í setustofur landsmanna og minna á afreksverk sín. Þeir eru líka fyrirferðamiklir almennt enda hefur skattheimta og reglugerðafargan af þeirra völdum áhrif á líf okkar allra. Menn sem bjóðast á þennan hátt til að gerast forsjármenn annarra, ekki síst þeir sem kenna sig við vinstristefnu og vilja auka afskipti stjórnmálamanna af fólki, hljóta að þola að farið sé yfir þeirra fyrri störf. Þeir sem vilja gerast forsjármenn annarra hljóta að hafa eigin mál á tæru.
Að undanförnu hafa tveir ungir menn lagt fram upplýsingar um fyrri störf tveggja frambjóðenda sem telja sig þess umkomna að ráðstafa árlega 20 milljörðum króna af skattfé Reykvíkinga. Er ánægjulegt að sjá að tveir einstaklingar sem ekki tengjast stjórnmálaflokkunum geti á þennan hátt haft áhrif á umræðuna. Það er ekki síst ánægjulegt þar sem kostnaður þeirra vegna framtaksins er sennilega innan við 2.000 krónur. Hafa þeir örugglega haft meiri áhrif á komandi borgarstjórnarkosningar en Ástþór Magnússon hafði á forsetakosningarnar fyrir tveimur árum með 40 milljónum króna! Og líklega munu þeir þegar upp er staðið hafa meiri áhrif en kosningamaskínur bæði R-lista og D-lista.
Þetta sýnir ef til vill hvað allt tal um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er hlálegt. Ný tækni gerir hverjum sem er kleift að koma skilaboðum á framfæri til fólks um allan heim fyrir smáaura.
Á sama hátt er það miður að margir frambjóðendur hafa brugðist við þessum upplýsingum með því að væna vefsíðumennina um rógburð og skítkast. Er það ekki fagnaðarefni að almennir borgarar láti til sín taka í umræðum um frambjóðendur? Eiga stjórnmálaflokkarnir að hafa einhvern einkarétt á því að kynna frambjóðendur? Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur kjósendur að fá að vita hvað frambjóðendum hefur mistekist í fyrri störfum en að heyra einhverja lofrullu frá stuðningsmönnum þeirra. Hvernig á að gera upp á milli frambjóðenda ef aðeins er boðið upp á lof og prís frá flokksskrifstofum þeirra? Auðvitað ættu fjölmiðlar að fara ítarlega yfir fyrir störf frambjóðenda þannig að kjósendur geti dæmt þá af verkum fremur en slagorðum. Fyrri verk frambjóðenda, bæði góð og slæm, eru traustari mælikvarði á mannkosti þeirra en froðan sem streymir frá kosningaskrifstofum.