Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á sunnudag er leitað skýringa á slöku gengi D-listans í Reykjavík í skoðanakönnunum fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Hallast höfundur bréfisins að því að góðærið ráði þar miklu um. Fólk sjái enga áðstæðu til að skipta um stjórnendur á meðan vel árar. En er þetta svona einfalt? Í nokkur ár hefur árað mjög vel í bresku efnahagslífi en engu að síður komst Nýi verkamannaflokkurinn til valda á síðasta ári með því að gjörsigra sitjandi valdhafa sem höfðu allar ytri aðstæður með sér. Þá gekk sú kenning að svo vel áraði að fólk teldi óhætt að skipta um stjórnendur.
Málflutningur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur vegna hins umdeilda fjármálaferils Helga Hjörvars og Hrannar B. Arnarssonar er athyglisverður. Hún segir að þetta séu gömul mál sem öllum hafi verið áður kunn en segir svo að það sé engin tilviljun að upplýsingar um málin séu lagðar fram nú. Hún segir það leðjuslag að fara yfir feril frambjóðenda en óskar engu að síður eftir því að farið verði yfir fjármálaferil 15 efstu manna á R-lista og D-lista. Hrannar B. Arnarsson segir það hafa verið mikla reynslu að ganga í gegnum erfiðleika í fjármálum og sú reynsla geti komið að notum við stjórn borgarinnar. Það var verst að hann gleymdi að geta um þessa reynslu í kynningarbæklingum sem hann sendi út fyrir prófkjör R-listans og á heimasíðu sinni.
Um eitt virðast menn þó sammála í þessari umræðu um fjármál frambjóðendanna tveggja: Það er ekki hægt að dæma menn úr leik í þjóðfélaginu vegna fjárhagserfiðleika. Allir geta tapað fé í viðskiptum. Þess vegna er mikilvægt að fjölmiðlar komi ítarlegum upplýsingum um mál sem þessi á framfæri. Aðeins þannig geta kjósendur áttað sig á því hvort um afmarkað og tímabundið mál er að ræða eða langvarandi og margendurtekna fjármálaóreiðu. Hingað til hafa fjölmiðlarnir hins vegar látið sér nægja að ræða við yfirspennta frambjóðendur af R-lista og D-lista sem vart eru trúverðugir aðilar svona nokkrum dögum fyrir kosningar.