Þriðjudagur 12. maí 1998

132. tbl. 2. árg.

Slæm tíðindi eru fréttnæmari en góð. Á sama hátt er mengunarslys fréttnæmari en þegar dregur úr mengun. Umhverfisverndarsamtök benda líka oft á mengun enda aflar það málstað þeirra fylgis. Af þessum sökum hafa menn það mjög á tilfinningunni að mengun fari vaxandi. Pacific Research Institute gaf nýlega út nokkurs konar umhverfisvísitölu fyrir árið 1998 í Bandaríkjunum og Kanada. Þar kemur fram að mjög hefur dregið úr loftmengun undanfarna tvo áratugi. Útblástur brennisteinstvíoxíðs hefur t.d minnkað um 41,2% frá árinu 1970. Styrkur blýs hefur fallið um 99,9% milli áranna 1976 og 1994.
Sömu sögu segir PRI af ástandi yfirborðsvatns, stöðuvatna og áa. Hvað skóga varðar er fleiri trjám plantað en höggvin eru. Orkunotkun á hvern íbúa hefur einnig fallið milli áranna 1979 og 1995.

Þegar stjórnmálamenn spila stórt hlutverk á ákveðnum sviðum verður orðanotkun oft stofnanaleg. Þetta á meðal annars. við um margt sem snýr að barnaheimilum. Þannig er  til dæmis talað um heilsdagsvistun. Kristín Dýrfjörð vakti athygli á því í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn að nú verið ræddu stjórnmálamenn um dagvistarúrræði fyrir börn. Það væri engu líkara en að börnin væru meiriháttar vandamál. Þetta er ágæt ábending hjá Kristínu sem starfar sem fóstra en skrifar auðvitað undir greinina sem leikskólakennari.

Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur stundum bent á ganga framfaramál stundum hægar en menn óska sér. Þannig mætti t.d. að ósekju vera meiri hreyfing á einkavæðingarmálum en raun ber vitni. Þó má segja að miði þótt hægt fari og ef menn láta ekki hugfallast við úrtöluraddir manna eins og Svavars Gestssonar og Ögmundar Jónassonar, sem á Rás 2 í fyrradag töluðu sem mest þeir máttu gegn einkavæðingu, þá næst markmiðið að lokum. Afreksmenn í íþróttum þekkja þetta vel. Fyrir 13 árum og um 60 kílóum af vöðvamassa var fjallað um ungan kraftlyftingamann í blaði Kraftlyftingasambands Íslands. Eftir þrotlausar æfingar náði þessi íþróttamaður, Auðunn Jónsson, í fyrradag þeim árangri að vinna gullverðlaun á Evrópumeistaramóti í grein sinni. Slík afrek kenna mönnum að láta ekki úrtölur stöðva sig, hvort sem um er að ræða afrek í íþróttum eða framfarir í þjóðmálum.

Skylmingar Hrannars B. Arnarssonar og Helga Hjörvars við tvo fyrrum samstarfsmenn sína halda áfram.