Mánudagur 27. apríl 1998

117. tbl. 2. árg.

Sjálfstæðismenn hafa sett fram þá hugmynd að foreldrar sem eru heima með börnum sínum á leikskólaaldri fái sömu upphæð greidda frá Reykjavíkurborg og borgin ver til niðurgreiðslu á leikskólavist hvers barns. R-listinn hefur gagnrýnt að þessi hugmynd kosti mjög mikið í framkvæmd. En engu að síður lofar R-listinn því nú aftur að öll börn geti fengið dagvistarpláss sem myndi auðvitað kosta það sama og hugmynd sjálfstæðismanna!

Einfaldast væri auðvitað að borgin hætti afskiptum sínum af barnagæslu og lækkaði um leið skatta á borgarbúa sem svara til kostnaðar borgarinnar af dagvistarmálum. Enda erfitt að sjá rök fyrir því að þeir sem eiga engin eða fá börn eigi að borga fyrir gæslu á börnum annarra? Fólk ræður hvort það eignast börn.
En líklega mun hvorugt framboðið láta sér detta slíkt í hug þar sem með því væri verið að draga úr skömmtunarvaldinu sem flestir frambjóðendur virðast sækjast eftir og færri tækifæru gæfust til að brosa framan í myndavélarnar við opnun nýrra leikskóla. Og takið eftir að frambjóðendur munu í kosningabaráttunni ekki hika við að segja VIÐ BYGGÐUM SVONA MARGA LEIKSKÓLA þótt reikningurinn sé auðvitað sendur skattgreiðendum í borginni.

Þess má svo geta að R-listinn hefur sett upp heimasíðu en eins og minnst var á í síðustu viku hefur Sjálfstæðisflokkurinn sett upp slíka síðu fyrir nokkru. Þegar loforðaflaumur beggja lista er skoðaður verður ekki annað sagt en sú niðurstaða sem fékkst í skoðanakönnun Viðskiptablaðsins á dögunum sé skiljanleg. Þar kom í ljós að fólk treystir stjórnendum fyrirtækja best, verkalýðsrekendum töluvert síður og allra síst stjórnmálamönnum.