Ögmundur Jónasson alveg óháður þingmaður Alþýðubandalagsins fór hamförum á Alþingi í fyrradag vegna afskipta ríkisstjórnarinnar af kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna. Ekki var annað að skilja á Ögmundi en ríkisstjórnin hefði með afskiptum sínum gengið mjög á hlut sjómanna. Þessi afstaða Ögmundar kemur nokkuð á óvart. Hann hefur hingað til verið talsmaður „kjarajöfnunar“ en sjómenn eru ein tekjuhæsta stétt landsins. Hann ætti því að fagna öllum tilburðum í þá átt að gera kjör sjómanna jafnari því sem aðrir búa við.
Þá var Ögmundi og öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum tíðrætt um samningsfrelsi fólks á vinnumarkaði og ást sína á því. Ögmundur er engu að síður formaður í BSRB og ef starfmenn hjá viðsemjanda BSRB kæra sig ekki um samninga þá sem BSRB gerir mega þeir gjöra svo vel að hypja sig úr starfi. Mikið samningsfrelsi þar.
Björn Bjarnason menntamálaráðherra er gjarnan kynntur sem „ráðherrann á netinu“ og þannig vísað til þess, að hann var fyrstur ráðherra til að opna sérstaka netsíðu með sínum persónulegu málefnum. Hann ekki lengur einn um þetta því að Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur nú fetað í fótspor hans með sérstakri heimasíðu. Halldór, sem er kunnur sprelligosi, skemmtir aðdáendum sínum m.a. með því að sýna myndir af sér í leik og starfi.
Vináttufélag Íslands og Kúbu heldur opinn fund í dag. Á fundinum verður rætt um menningu og byltingu á Kúbu enda sjálfsagt ekki vanþörf á að bylta einu og öðru á þeirri annars ágætu eyju. Í fundarboði er sérstaklega tekið fram að á fundinum verði „frjálsar umræður“. Skiljanlegt er að þeir sem þekkja til á Kúbu telji ástæðu að taka slíkt fram.