Föstudagur 27. mars 1998

86. tbl. 2. árg.

Helgi Hjörvar, 1. frambjóðandi Alþýðubandalagsins til borgarstjórnar, hefur undarlegar hugmyndir um stefnu flokksins síns, eins og fram kemur í viðtali við hann í nýjasta ársriti Verzlunarskólans. Þar segir Helgi m.a.: „Það er ekki nokkur maður sem meinar eitthvað með því að Alþýðubandalagið sé á móti NATO. Það er langt síðan Svavar Gestsson gekk í NATO.“ Þegar stefnuskrá  flokksins hér á Netinu er skoðuð kemur þó í ljós að Allaballar eru enn á móti varnarsamstarfi lýðræðisþjóða og er ómögulegt að sjá annað en þeir meini það sem þeir segja. Þar  segir: „Alþýðubandalagið berst fyrir því að Ísland verði friðlýst og herlaust land utan hernaðarbandalaga,“ eða m.ö.o. „Ísland úr Nató, herinn burt!“  Það lofar ekki góðu að Helgi láti það vera eitt af sínum fyrstu  verkum í pólitík að segja fólki ósatt um stefnu flokksins síns. Helgi verður að sætta sig við að hann er í gömlum sósíalistaflokki sem enn hefur ekki gert upp við fortíð sína.

Helgi hefur einnig þóst vera sérstakur talsmaður lýðræðis í stjórnmálum og heldur að því oftar sem kosið sé þeim mun betur farnist fólki. Fyrirtæki þarf t.d. ekki að einkavæða að hans mati, bara að láta almenning kjósa stjórnina beinni kosningu. Almenningur á samkvæmt þessu að vera sérfræðingur í rekstri fjölmargra fyrirtækja, auk þess sem hann á að kjósa í hverfastjórnir og sjálfsagt götustjórnir ef þess háttar sjónarmið verða ofan á. Mörgum þykir nú ærið verk að setja sig á fjögurra ára fresti bæði inn í vitleysuna sem margir stjórnmálamenn bjóða þeim upp á í sveitarstjórnarmálum og í landsmálum. Að ekki sé talað um þegar fólk þarf að reyna að rifja upp vafasaman feril óvandaðra stjórnmálamanna sem gefa kost á sér til forseta. Sumir vilja sem betur fer gera annað við tímann en lesa sér til fyrir kosningar.Það er annars merkilegt við þessa meintu lýðræðisást ungra vinstrimanna að þeir skuli margir styðja flokk sem berst gegn samstarfi lýðræðisríkja, en dást á sama tíma helst að ríki einræðisherrans Castro.

Fréttir berast nú af því að ólögleg vímuefni hafi horfið úr vörslu lögreglunnar og einnig að töluverð neysla slíkra efna eigi sér stað í fangelsinu að Litla-Hrauni. Þetta leiðir hugann að því hvernig miðar að því markmiði yfirvalda að „Ísland verði fíkniefnalaust árið 2002“. Ef tekst að smygla þeim inn í rammgerð fangelsi þar sem menn eru undir ströngu eftirliti og út af lögreglustöðvum hvernig ætli gangi að koma í veg fyrir smygl til landsins?