Fimmtudagur 26. mars 1998

85. tbl. 2. árg.

Svavar Gestsson, eitt sinn kommi en líklega núverandi „jafnaðarmaður“ eins og þeir heita víst, er við svipað heygarðshorn og fyrr þegar einka- og ríkisrekstur er annars vegar. Nú er að hans mati afar mikilvægt að ríkið eigi í stóriðjurekstri vegna þess að brýnt sé að ríkið búi yfir þekkingu á því sviði! Afleiðing þessarar skoðunar félaga Svavars er ekki aðeins sú að honum er illa við væntanlega einkavæðingu Járnblendisins, heldur vill hann að ríkið eigi hlut í nýjum stóriðjufyrirtækjum sem stofnuð eru. Það er ljóst að Svavar hefur engu gleymt.

Annar þingmaður, Pétur H. Blöndal, viðrar hins vegar öllu gæfulegri sjónarmið í umræðum um einkavæðingu Járnblendisins. Hann vill vitaskuld selja hlut ríkisins í fyrirtækinu, auk þess að losa ríkið út úr fjármálastofnunum, enda sé ríkið með nánast allan fjármálamarkaðinn á sinni könnu. Óhætt er að taka undir vonir hans um að á næstu mánuðum verði stigin hröð og myndarleg skref til einkavæðingar.

Talsmenn sérstaks skatts á sjávarútveginn, þ.e. auðlindaskattsins svokallaða, hafa í gegnum tíðina gripið til margvíslegra og mátulega nothæfra röksemda máli sínu til stuðnings. Ein þeirra gengur út á að leggja megi auðlindaskatt á sjávarútveginn án þess að það komi niður á þeim byggðum sem byggja afkomu sína á fiskveiðum. Þetta á helst að gerast með því að koma upp sjóðakerfi hjá hinu opinbera til að styrkja byggðirnar. Illugi Gunnarsson hagfræðingur og Orri Hauksson verkfræðingur hafa fjallað um þetta í greinum í Mogganum að undanförnu og spyrja þar m.a. hvort Íslendingar vilji ganga aftur braut millifærslna, bótakerfis, opinberra sveiflusjóða og handstýringar. Hærri skattar og stærri opinberir sjóðir hafa hingað til ekki reynst vel og munu ekki heldur gera það hér eftir. Breytir engu hvort skattarnir og sjóðirnir bera vinaleg nöfn, eins og veiðileyfagjald eða Framkvæmdasjóður, eða eru þekktir undir fráhrindandi nöfnum eins og ekknaskattur eða Atvinnuleysistryggingasjóður.