Nú nýlega kom út nýtt tölublað tímaritsins Veru. Það blað hefur lítið fjallað um íþróttir fram að þessu og því kom nokkuð á óvart að það fagnaði sérstaklega nýlegum stökkum Völu Flosadóttur. En Vera lét það ekki nægja. Hún heldur því fram að Vala þessi verði efalaust valin íþróttamaður ársins eftir níu mánuði, en gerist það ekki, segir Vera, þá munu „konur“ mótmæla! Að hugsa sér; ef Vala Flosadóttir verður ekki valin íþróttamaður ársins þá munu konur mótmæla! Ekki stangastökkvarar, ekki frjálsíþróttamenn, nei: Konur. En ef t.d. Guðrún Arnardóttir grindahlaupari verður valin? Eða Sigrún Huld Hrafnsdóttir margfaldur heimsmethafi í sundi fatlaðra? Munu konur þá ganga af göflunum?
Þessi hugsunarháttur er ótrúlega algengur meðal margra kvenna. Gangi ekki allt í haginn á framabrautinni, séu þær ekki studdar til starfsframa, stjórnmálametorða eða annars ímynda þær sér gjarnan að það stafi af kyni þeirra. Þröngsýnir karlmenn hafi ekki verið nógu þroskaðir til að styðja þær. Sjaldnast dettur þessum konum í hug að eitthvað geti vantað upp á þeirra eigin verðleika. Þessa hugsunarháttar virðist gæta ótrúlega víða, hvort sem horft er til gamalla vinstrisinnaðra rauðsokka eða ungra hægri kvenna.
Fyrirtæki eiga misauðvelt með að draga úr útblæstri lofttegunda sem sagðar eru mengandi. Reglugerð sem kveður á um að öll fyrirtæki skuli draga úr mengun getur því gert útaf við þau fyrirtæki sem geta lítið dregið úr mengun vegna kostnaðar. Mengunarskattar hafa sama ókost og reglugerðirnar. Þeir lenda harkalega á fyrirtækjum sem eiga erfitt með að draga úr mengun. Skattar og reglugerðir geta jafnvel leitt til meiri mengunar ef fyrirtæki flytja til annarra landa þar sem eldri framleiðslutækni er nýtt.
Svonefndum mengunarkvótum hefur verið úthlutað á stöku stað. Þeir hafa þann kost umfram reglugerðir að fyrirtæki sem þurfa að leggja í mikinn kostnað til að draga úr mengun geta keypt kvóta af fyrirtækjum sem eiga auðvelt með að draga úr útblæstri mengandi lofttegunda.
Í Bandaríkjunum var brennisteinskvóti settur á raforkuver (sem nýta olíu og kol til raforkuframleiðslu) árið 1990. Orkuver sem finna leiðir til að draga úr útblæstri brennisteinsdíoxíðs geta því selt öðrum kvótann sinn. Viðskiptin fóru hægt af stað enda töldu menn kvótann ekki örugga eign og ýmsar undanþágur frá kvótakerfinu voru fyrir hendi. Undanfarin tvö ár hafa viðskiptin hinsvegar tekið mikinn kipp og allir eru ánægðir. Þeir sem geta dregið úr mengun hafa grætt á því, þeir sem geta það ekki hafa engu að síður getað haldið starfsemi sinni áfram og síðast en ekki síst hefur dregið úr útblæstri.