Þriðjudagur 24. mars 1998

83. tbl. 2. árg.

„Berlínarmúrinn var tákn kalda stríðsins. Hann stóð fyrir áþján Austur-Evrópu sem áratugum saman bjó við ófrelsi einræðisskipulagsins“, sagði Össur Skarphéðinsson í leiðara DV í gær.
Hver var annars félagi í þeim flokki á Íslandi sem helst studdi þjóðfélagsskipulagið handan múrsins? Og gekk ekki úr honum fyrr en um þær mundir sem múrinn hrundi? Hver ritstýrði Þjóðviljanum sáluga, blaðinu sem munaði ekki um að verja Lenín, Stalín og Hitler ef svo bar undir.

Í þessum leiðara sínum í DV í gær er Össuri annars mikið í mun að tala máli þeirra þjóða Austur-Evrópu sem vilja ganga í NATO. Orðrétt segir Össur: „Hér gildir sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Kjósi þær að velja sér framtíð undir væng NATO, þá er það skilyrðislaus réttur þeirra.“ Hægan nú. Var ekki Össur í þeim flokki sem taldi það atlögu að sjáflsákvörðunarrétti þjóða að vera aðili að NATO?

Það er lítið mál fyrir okkur hér á Íslandi að segja það „skilyrðislausan rétt“ þjóða að ganga í NATO. Ekki munum við bera kostnaðinn eða senda fólk á vettvang þegar átök brjótast út. Hitt er svo annað mál að Rússar eiga ekki að ráða úrslitum um það hvort þessar þjóðir ganga til liðs við NATO. Það hefði ef til vill verið rétt af félögum Össurar í Alþýðubandalaginu að vinna sjálfboðastörf fyrir NATO í stað þess að þramma Keflavíkurgönguna og sparka í punginn á löggunni á sínum tíma. Þá væri ef til vill hægt að lesa leiðara DV án þess að verða ómótt af hræsninni.

Utanríkisráðherra Eistlands flutti fróðlega tölu á fundi hjá Varðbergi og Samtökum um vestræna samvinnu í gær. Eistar hafa skotist fram í nágrönnum sínum í Lettlandi og Litháen og raunar flestum ríkjum Austur-Evrópu í efnahagsmálum og þakkaði ráðherrann það frjálslegri efnahagsstefnu frá því landið fékk sjálfstæði. En nær engir tollar, hömlur á fjárfestingum útlendinga né aðrar viðskiptahindranir eru í  Eistlandi. Þetta nær algera frjálsræði hefur raunar valdið því að Eistland hefur átt í vandræðum með aðild að fríverslunarsamningnum GATT vegna þess að  þar er ekki gert ráð fyrir því að menn taki það upp hjá sjálfum sér að gefa viðskipti með allt milli himins og jarðar frjáls!

Allt frá flugvöllum til matvörubúða hefur verið einkavætt í  Eistlandi og Eistar ekki verið bangnir við að selja erlendum fyrirtækjum hlut í ríkisfyrirtækjum sínum. Tekjuskattur er flatur 26% enda sagði  ráðherrann að þeir vildu „ekki refsa fólki fyrir velgengni“. Atvinnuleysi er 5% sem er töluvert minna en gengur og gerist í Evrópu. Vart þarf að taka það fram að Eistar hafa undanfarin ár skotist fram úr okkur Íslendingum þegar frelsisvísitalan er mæld.