Mánudagur 23. mars 1998

82. tbl. 2. árg.

Ólafur Arnarson ritaði grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku þar sem hann gerir tilraunir opinberra aðila til að „tryggja samkeppni“ að umtalsefni: „Svo virðist sem töluverð hætta sé á að opinberir eftirlitsaðilar fari sér heldur of geyst við að tryggja óhefta samkeppni. Í sumum tilfellum hefur þó verið réttlætanlegt að grípa inn í. Bandaríska símafyrirtækið AT&T hélt t.d. bandarískum símamarkaði í stálgreipum sínum áður en það var brotið upp í kringum 1980. Ekki má þó gleyma að þessi einokun fyrirtækisins var til kominn vegna ríkisverndaðs einkaréttar. Það er fyrst nú, tæpum 20 árum síðar, að Evrópulönd eru að stíga sömu skref og losa símamarkaði sína úr greipum einokunar.“

Áfram úr grein Ólafs: „Það getur verið háskálegt að skilgreina Ísland, eitt og sér, sem samkeppnisumhverfi. þegar erlend fyrirtæki geta hvenær sem er hafið samkeppni hér á landi. Vandi okkar er ekki hve íslensk fyrirtæki eru stór og öflug heldur hitt, hversu agnarsmá þau eru í hinu alþjóðlega samkeppnisumhverfi.“

Umræður um menntamál snúast oft á tíðum aðallega um fjárútlát. Sumir eru þeirrar skoðunar að ef bæta eigi menntun verði að eyða meira fé í hana. Engin önnur leið sé fær. Í Kansasborg í Bandaríkjunum hefur þessi leið verið reynd í rúman áratug og á þeim tíma hefur ekki verið litið til kostnaðar þegar menntun er annars vegar. Borgin er nú með dýrasta menntakerfi í landinu, enda fylgt öllum þeim formúlum sem oft eru sagðar allra meina bót, svo sem að fækka í bekkjum, minnka vinnuskyldu kennara og hækka laun þeirra. Auk þess hefur allur aðbúnaður verið gerður hinn glæsilegasti. Niðurstaðan hefur þó orðið sú að árangur nemenda hefur ekki batnað.

Þetta má lesa í skýrslu frá Cato stofnuninni, en í henni kemur einnig fram að samkvæmt könnun hagfræðings við Rochester háskóla á 400 rannsóknum á samhengi fjárútláta til menntunar og árangurs nemenda komi í ljós að yfirleitt sé ekkert samhengi þarna á milli. Það sem skiptir að mati hagfræðingsins meira máli er að í kerfinu sé hvati til betri árangurs, t.d. aukagreiðslur til kennara sem standa sig vel. Gallinn sé hins vegar sá að þeir sem starfi í menntakerfinu séu yfirleitt á móti hugmyndinni um samkeppni.