Þriðjudagur 10. febrúar 1998

41. tbl. 2. árg.

Samkvæmt frétt í DV hefur Hæstiréttur dæmt „íbúa í Kópavogi“ (já hugsið ykkur hann býr í Kópavogi) í 20.000 króna sekt fyrir að geyma myndir af nöktu fólki á heimasíðu sinni. Samkvæmt sömu frétt í DV sást jafnvel í kynfæri þessa nakta fólks. Nú er ekki hjá því komist að beina einni spurningu til löggjafans sem gera verður ráð fyrir að sett hafi „lögin“ sem dæmt var eftir í þessu máli: Hvað kemur það þriðja aðila við þótt tveir einstaklingar komi sér saman um að skiptast á frímerkjum, servíettum eða eins og í þessu tilfelli berrassmyndum?
Það er hins vegar gleðilefni að lögregla og ríkissaksóknari hafa ekki meira að gera en svo að þau geta sveimað um netið í leit að myndum af klæðalitlu fólki. Það er vafalaust mun mikilvægara en að gæta öryggis borgaranna á götum úti.

Í framhaldi af þessu má geta þess að m.a. vegna þess hve viðskipti með „klám“ eru með miklum blóma á netinu hefur þróun viðskiptahugbúnaðar fyrir netið tekið miklum framförum. Þessi viðskiptahugbúnaður nýtist að sjálfsögðu í hvers kyns öðrum viðskiptum um netið. Við stöndum því vissulega í þakkarskuld við þá sem kaupa og selja „klám“ á netinu.

Í nóvember árið 1995 var haldin ráðstefna í Leipzig í Þýskalandi sem bar yfirskriftina „The Greenhouse Controversy“ eða „Álitaefni um gróðurhúsaáhrifin“. Í skjali sem kennt er við Leipzig hafa sérfræðingar í loftslagsfræðum varað við því að gripið verði til róttækra aðgerða til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda af manna völdum. Í yfirlýsingunni segir að slíkar aðgerðir skorti vísindalegan rökstuðning. Yfirlýsingin var endurnýjuð á ráðstefnu í Bonn í nóvember 1997 og hér má finna nöfn þeirra fræðimanna sem hafa þegar undirritað yfirlýsinguna.

Þeir sem rýna of náið í Moggann sáu á laugardag leiðréttingu vegna umfjöllunar um sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa. Á fundi um sameiningarmálin hafði einn fundarmanna látið þess getið að ekki væri rétt að tengja nafngift sveitarfélagsins við Flóann, enda sé fólk strax farið að tala um Flóafífl og annað í þeim dúr. Leiðréttingin gekk svo út á að það hafi ekki verið skoðun ræðumanns að uppnefnið Flóafífl sé niðrandi! Hver segir svo að þjóðmálaumræðan risti ekki djúpt.