Miðvikudagur 11. febrúar 1998

42. tbl. 2. árg.

Í nýjum Evrópufréttum  er birtur listi yfir framlög einstakra ríkja til Evrópusambandsins og hvað þau fá náðarsamlegast til baka frá sambandinu. Þannig leggja Þjóðverjar fram 29,2% heildarframlaga en fá aðeins 14,8%. Spánverjar eru sterkari við kjötkatlana og fá 15,6% en leggja aðeins fram 6,4%. Portúgalir setja 1,2% í pottinn en veiða heil 5,4% upp úr honum.  Svíar eru í hópi þeirra sem styrkja Spánverja, Portúgali, Dani, Finna, Íra og Grikki og fleiri ríki sem hafa meira upp úr krafsinu en þau leggja fram. Svíar láta 2,8% af hendi rakna en fá 1,9%. Aðeins eitt ríki fær það sama og það leggur fram en það er Lúxemborg með 0,2%.

Hinn 19. maí árið 1995 ritaði háskólaprófessorinn Þorvaldur Gylfason grein í tímaritið Vísbendingu sem bar heitið Hagvaxtarundrið í Asíu. Þar segir m.a.:„Í Kóreu og Taívan eru embættismenn iðulega sóttir í háskólana. Þannig hefur Kóreustjórn tekizt að reka spillingarorð  af embættiskerfinu þar, og þess var þörf, þar eð kóreskir embættismenn nutu lítillar virðingar meðal almennings langt fram yfir 1960.“

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar kveður Þorvaldur sér aftur hljóðs og nú heitir greinin: Asía: Ekkert að óttast. Eins og nafn greinarinnar ber með sér fjallar hún einkum um þá efnahagserfiðleika sem nokkrar þjóðir Asíu eiga við að stríða um þessar mundir. Það vekur athygli að Þorvaldur kennir ekki síst spillingu meðal embættismanna þessara landa um erfiðleikana. Það virðist því ekki hafa skipt sköpum að sækja embættismennina í háskólana. Spillingin er enn til staðar og Þovaldur segir að haft sé á orði að „allir stjórnmálamenn í Taílandi eigi banka og allir bankar eigi tvo stjórnmálamenn“.
Það eina sem virðist því hafa breyst við að embættismennirnir voru „sóttir í háskólana“ er að þessum háskólamenntuðu embættismönnum tókst að telja sumum háskólamönnum í öðrum löndum trú um að engin spilling ætti sér stað.