Hið opinbera telur einkaleyfi ríkisins til smásölu á áfengi nauðsynlegt heilbrigði þjóðarinnar. Einkaaðilum er hins vegar heimilt að flytja inn þessa vöru og hafa með höndum heildsölu á henni, enda eru viðskipti á því sölustigi ekki talin snerta neytendur eða heilbrigði þeirra. Ríkið er eini löglegi innflytjandi tóbaks og mun það vera vegna áhrifa þess á heilsufar. Tóbak er hins vegar selt í hverri einustu matvöruverslun, söluturni og bensínstöð á landinu, þar sem neytendur hafa allgreiðan aðgang að vörunni. Það er því vandséð að afnám á einkarétti ríkisins til tóbaksinnflutnings geti aukið aðgengi neytenda að vörunni frá því sem nú er og þó reyna ýmsir þingmenn að koma í veg fyrir að tillögur ráðherraskipaðrar nefndar um afnám á einkarétti ríkisins á innflutningi tóbaks verði að veruleika.
Þetta misræmi sem fyrir hendi er á milli reglna um innflutning og smásölu áfengis og tóbaks er vægast sagt furðulegt. Ef besta fyrirkomulagið er einkainnflutningur ríkisins en samkeppni í smásölu, af hverju er þá ekki áfengismálunum hagað með þeim hætti? Ef besta fyrirkomulagið er hins vegar samkeppni í innflutningi en einkaréttur ríkisins á smásölu, af hverju er þá ekki farin sú leið í tóbaksmálunum? Skiptir einkaréttur ríkisins á öðru hvoru þessara sölustiga yfir höfuð máli þegar horft er til neyslunnar? Er einhver ástæða fyrir ríkið sjálft að taka þátt í fyrirtækjarekstri á þessu sviði? Svörin við þessum spurningum virðast þvælast illilega fyrir stjórnlyndum alþingismönnum.
Mogginn opnaði nýja heimasíðu á miðnætti. Blaðamönnum síðunnar tekst reyndar ekki að rita nöfn beggja ritstjóra sinna rétt, en í nógu hefur líklega verið að snúast þannig að slíkt verður að fyrirgefa. En burtséð frá réttritun lofar síðan góðu og svo virðist sem hún verði góð viðbót við netflóruna.
Eins og mönnum er kunnugt hættu sjálfstæðismenn í Garðabæ við að halda prófkjör vegna lítils áhuga á þátttöku. Í Kópavogi virðast þeir öllu hressari og ætla að halda prófkjör um næstu helgi. Þeir berjast m.a. á Netinu um hylli kjósenda og ein heimasíðan er frá Höllu Halldórssdóttur bæjarfulltrúa.