Helgarsprokið 1. febrúar 1998

32. tbl. 2. árg.

Nú um helgina var blásið til prófkjörs R-listaflokkanna í Reykjavík. Fór það varla fram hjá neinum, svo mjög sem ýmsir frambjóðendur auglýstu sig og svo rösklega sem gengið var fram í hringingum til stuðningsmanna allra flokka, og er þá Sjálfstæðisflokkurinn alls ekki undanskilinn. Þótti reyndar ýmsum skondið að fylgjast með miklum auglýsingum frambjóðenda, þar sem menn minnast þess að í hvert sinn er Sjálfstæðisflokkurinn efnir til prófkjörs hafa forystumenn vinstri flokkanna talið auglýsingar sönnun þess að á þeim bæ gildi það eitt að hafa sem rúmust fjárráð. Í kosningasjónvarpi sem SÝN efndi til (vel við hæfi að slagsmál R-listafólksins voru send út á sama tíma og venja er að bjóða upp á „Box með Bubba“) sagði Helgi Ú. Hjörvar frambjóðandi reyndar, að svo skemmtilega hefði viljað til að það hafi ekki verið þeir sem auglýstu mest sem náðu bestum árangri. Fljótlega verður sögukenningin líklega orðin sú að Kolbrún Jónsdóttir, Einar Valur Ingimundarson, Drífa Snædal og Rúnar Geirmundsson hafi staðið fyrir illskeyttri auglýsingaherferð en Hrannar Arnarsson og Helgi Hjörvar farið með veggjum!

En þessi kenning er aðeins smávægileg hjá hinni sem mjög var haldið á lofti síðustu dagana. Vinstri menn hafa látlaust fullyrt að prófkjör þeirra hafi verið einkar lýðræðisleg athöfn. Nú hafi „fólkið í borginni“ fengið að velja á lista eins og „fólkið í borginni“ vill hafa hann. Það er nú svo. Til að athuga hvort prófkjörið var lýðræðislegt eða ekki, er gott að líta á staðreyndir frekar en staðhæfingar. Þegar talað er um „lýðræðislegt prófkjör“ dettur ef til vill einhverjum í hug að hver sem vildi hafi mátt gefa kost á sér í því. En það var nú aldeilis ekki svo. Forystumenn flokkanna tóku sjálfir að sér að ákveða hverjir mættu bjóða sig fram og hverjir ekki. Tökum dæmi: Gunnar Leví Gissurarson heitir maður, hann hefur starfað lengi innan Alþýðuflokksins, hefur unnið af áhuga að borgarmálum og er nú varaborgarfulltrúi. Hann langaði að gefa kost á sér í lýðræðislega prófkjörið þar sem fólkið í borginni velur sér frambjóðendur. Nei takk. Það fór ekki svo að kjósendur í prófkjörinu hafi hafnað honum og hans störfum.Hann fékk ekki einu sinni að bjóða sig fram! Nú kann einhver að halda, að þegar prófkjör er svo sérstaklega „lýðræðislegt“ að varla er um annað talað dögum saman, þá ráði vilji kjósenda hverjir fá vænleg sæti á framboðslista og hverjir ekki. En það er bara alls ekki svo. Tökum dæmi. Mun fleiri kjósendur í prófkjörinu vildu fá Árna Þ. Sigurðsson en Hrannar Arnarsson – afsakið, Hrannar Björn, – en það skiptir engu máli, þeir skulu fá Hrannar. Nú, en mun fleiri kjósendur vildu fá Árna en Alfreð Þorsteinsson, en það skiptir heldur engu máli, Alfreð var það heillin. Miklu fleiri kjósendur vildu fá Árna en Helga Pétursson en það kemur engum við, Helgi skal það vera. Kjósendurnir sem vildu fá Árna Þ. Sigurðsson verða að láta sér nægja að sitja heima og raula með Ríó tríóinu: „Verst af öllu er í heimi, einn að búa í Reykjavík. Kúldrast uppi á kvistherbergi, í kulda og hugsa um pólitík. Vanta félagsskap og finnast, fólkið líta niður á þig…“

Þetta stafar af því að forystumenn R-listaflokkanna miðuðu reglur sínar við ætlaða hagsmuni flokka en ekki fólks. Þannig skiptir engu máli hvort kjósendur vilja fá þrjá alþýðubandalagsmenn í borgarstjórn eða hvort þeir vilja bara einn framsóknarmann og eina kvennalistakonu. Forystumenn flokkanna hafa samið um þetta fyrirfram og það kemur kjósendum í lýðræðislega prófkjörinu ekki við. En þegar upp er staðið kemur í ljós að þessi áætlun gekk ekki eftir nema að hálfu leyti. Að vísu tókst með þessu móti að draga úr áhrifum kjósenda en ekki gekk eins vel að gæta hagsmuna flokkanna. Þannig er niðurstaðan fyrir Alþýðuflokkinn sú að hann er endanlega hættur afskiptum af borgarmálum. Alþýðuflokknum var skammtaður rýr hlutur á fyrri framboðslista R-listans, aðeins einn maður í átta efstu sætunum, en nú fær flokkurinn engan mann. Í sætum þeim er flokknum voru ætluð sitja nú alþýðubandalagsmaðurinn fyrrverandi Hrannar Arnarsson og framsóknarmaðurinn fyrrverandi Helgi Pétursson. Þeir sáu sér leik á borði og fóru í framboð fyrir þann flokk sem hafði veikustu frambjóðendurna.

En örlög og niðurlæging Alþýðuflokksins eru einmitt mestu tíðindi prófkjörsins (fyrir utan það að sjálfsögðu að borgarstjóraefnið valdi sér sæti fyrirfram). Þegar litið verður til baka árið 2002 mun sjást að frá 1990 hefur flokkurinn aðeins í fjögur ár átt nokkurn fulltrúa í borgarstjórn, þ.e. frá 1994-1998, því í samkrullinu sem hét Nýr vettvangur og bauð fram árið 1990 fékk Alþýðuflokkurinn engan mann. Þetta er vægast sagt undarleg staða fyrir flokk sem sækir fylgi sitt að mestu leyti í þéttbýlið og bendir til að flokkurinn sé ekki allt of lífvænlegur. Það má því í raun segja að sigurvegari prófkjörsins sé formaður Alþýðuflokksins, Sighvatur Björgvinsson, því hann hefur frá því hann tók við lagt sig fram um að koma flokknum fyrir kattarnef. Honum tókst á nokkrum vikum það sem hafði ekki tekist í 84 ár, þ.e. að leggja Alþýðublaðið niður, síðan hefur hann verið að tala flokkinn út úr íslenskum stjórnmálum og virðist vera þessa dagana að berja síðustu naglana í kistuna. Sighvatur getur því horft björtum augum til framtíðarinnar í trausti þess að enginn vinni sitt dauðastríð.