Í vikunni hefur Össur Skarphéðinsson ritstjóri DV verið með mikla herferð fyrir því að þrávirk lífræn efni séu stórkostlegt vandamál á norðurslóðum, ekki síst fyrir ísbirni, karlmenn og brjóstmylkinga. Hefur hann m.a. slegið þessu máli upp á forsíðu í tvígang. Í fyrirsögnum hefur verið gefið í skyn að hættulegt sé fyrir íslenskar mæður af hafa börn sín á brjósti og að almennt getuleysi verði hér um slóðir á næstu árum.
En þegar fræðimenn eru spurðir álits (m.a. í þessum sömu fréttum DV) leggja þeir áherslu á að magn þessara efna í brjóstamjólk sé langt undir öllum hættumörkum. Engar sannanir eru fyrir fækkandi sæðisfrumum hjá karlmönnum á Vestulöndum heldur eru rannsóknir mjög misvísandi. Össur gefst þó ekki upp og til að gæta hlutleysis tók hann viðtal við Árnýju E. Sveibjörnsdóttur, konu sína, um málið. Í fyrradag ritar hann svo leiðara í DV þar sem hann reynir af veikum mætti að telja almenningi trú um að þrávirk lífræn efni muni eyða öllu lífi á jörðinni. Helsti rökstuðningur Össurar er að níuhundruð manns hafi sótt ráðstefnu í San Francisco um þetta mál í fyrra . Þetta mun vera í fyrsta sinn sem magn eiturefna í náttúrunni er mælt með því að telja ráðstefnugesti! Óneitanlega athyglisverð kenning hjá Össuri.
Hitt er svo annað mál að þótt Össur reyni með sorpfréttaflutningi af þessum málum að afvegaleiða fólk er full ástæða til að hafa áhyggjur af umgengni við almenninga á borð við úthöfin. Þessir almenningar og þær auðlindir sem þar eru eiga það á hættu að sæta illri meðferð þar sem enginn hefur hag af því að gæta þeirra. Þá skortir með öðrum orðum eigendur. Til allrar hamingju eru menn smám saman að átta sig á því að besta mengunarvörnin er skýr eignarréttur. Þeir sem eiga nýtingarrétt á auðlindum hafsins munu að sjálfsögðu gæta þess að eignum þeirra sé ekki spillt með slæmri umgengni. Þess vegna hefur Össur líka rangt fyrir sér þegar hann berst gegn séreignarrétti á nýtingu fiskistofnanna við Ísland og telur það heppilegast að ríkið eigi réttinn.
Það er þó nokkur von í því að Össur hefur sífellt verið á flótta frá fyrri skoðunum sínum, allt frá því þegar hann var með skærur á þingpöllum sem stúdentaleiðtogi, ritstýrði Þjóðviljanum sem allaballi, var kjörinn á þing sem krati og ritstýrði málgagni kratanna og þar til hann gerðist frjáls og óháður ritstjóri DV. Þess er því vart langt að bíða að mesti vindhani íslenskra stjórnmála snúist í þessum málum eins og öðrum.