Laugardagur 24. janúar 1998

24. tbl. 2. árg.

24. janúar 1997 – 24. janúar 1998.

VefÞjóðviljinn eins árs!

Gjaldþrotaskiptum á Þjóðviljanum lauk á dögunum. Jafnaðarmennirnir í Alþýðubandalaginu keyrðu blaðið í þrot fyrir nokkrum árum, skiptu um nafn og kennitölu og gáfu um hríð út Vikublaðið. Loks lauk einnig þeirri þrautargöngu. Gjaldþrot Þjóðviljans og lok skipta þrotabús hans nú eru táknræn fyrir hugmyndafræðina sem að baki þessu blaði lá. Kommúnisminn, sósíalisminn, félagshyggjan, jafnaðarmennskan eða hvað það nú er sem vinstri menn kjósa að kalla sig, er jafn gjaldþrota og Þjóðviljinn sálugi. Gjaldþrotið varð ljóst þegar almenningur, sem hafði fyrir löngu fengið nóg af kúgun kommúnismans, reif niður Múrinn í Berlín.

Þá hófust gjaldþrotaskipti þessarar hugmyndafræði og standa þau enn.

Til marks um það er margt af því daglega karpi sem frjálslyndir menn eiga í við hina svokölluðu jafnaðarmenn dagsins í dag, því hinir síðarnefndu hafa enn ekki áttað sig á því að stefnan er þegar orðin gjaldþrota og þrjóskast enn við. Þeir virðast enn halda að ríkið geti gert gagn með því að „styðja við” atvinnurekstur eða stýra neyslu fólks og enn reka þeir upp ramakvein ef skera á niður velferðarríkið.

Athyglisverð grein um velferðarkerfi eftir Ragnar Árnason prófessor í hagfræði birtist í nýútkomnu afmælisriti vegna fimmtugsafmælis Davíðs Oddssonar. Þar er bent á að auk beins útlagðs kostnaðar sé margs konar leyndur kostnaður óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra kerfa. Sá kostnaður stafar annars vegar af því að þeir sem geta hugsanlega átt rétt á samhjálpinni breyta hegðun sinni hennar vegna og hins vegar af því að skattgreiðendur breyta hegðun sinni vegna þeirrar skattheimtu sem samhjálpinni fylgir. Um vandræði vinstri manna segir Ragnar meðal annars: „Í þessari þversögn felst hinn fræðilegi Akkillesarhæll jafnaðarmennskunnar (sósíalismans) eins og hún hefur birst í stjórnmálum Vesturlanda, ekki síst á Norðurlöndum. Fullvíst mál telja, að hið opinbera samhjálparkerfi, velferðarkerfið, sem jafnaðarhreyfingar hafa gert að hornsteini stjórnmálastefnu sinnar, dragi úr framleiðslu og þar með að öllum líkindum heildarvelferð í samfélaginu. Þetta er auðvitað erfiður pólitískur biti að kyngja. Enn tormeltara frá pólitísku sjónarmiði er, að það er vel hugsanlegt, að framleiðsluminnkunin sé svo mikil, að velferð margra þeirra, sem samhjálparkerfinu er ætlað að styðja sé í rauninni minni fyrir vikið. Sé svo, hefur velferðarríkið í rauninni snúist upp í andstæðu sína, ekki ósvipað Sovétríkjunum sálugu, sem áttu að frelsa og auðga verkalýðinn.“

Þar sem andarslitrur hugmyndafræði vinstri manna virðast ætla að taka nokkurn tíma er frjálslyndum mönnum nauðsynlegt að sofna ekki á verðinum. Þeir sem hafa trú á frelsi einstaklingsins og vantrú á ríkisafskiptum þurfa sífellt að halda málstað sínum á loft. Þetta er ástæða þess að hafin var útgáfa VÞ hér á Netinu fyrir réttu ári. VÞ mun hér eftir sem hingað til leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að flýta skiptum í búi gjaldþrota hugmyndafræði vinstri manna.