Föstudagur 23. janúar 1998

23. tbl. 2. árg.

Finnur Ingólfsson hefur nú gefið skýringu á því hvers vegna hann dregur lappirnar í því að einkavæða ríkisbankana, einkum hinn nýja Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þegar Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir hann nú fyrir að standa sig ekki í þessu efni svarar hann því til að hann sé að bíða eftir því að verðmæti eignanna aukist svo ríkið fái meira í sinn hlut. Nú kann að vera að Finnur sé hinn snjallasti þegar kemur að rekstri og verðmætasköpun, en þó á VÞ bágt með að trúa að hann sé betur til þess fallinn en einkaaðilar að auka verðmæti fyrirtækja. Það er algengur misskilningur (stjórnlyndra) stjórnmálamanna að halda að þeir séu allra manna best til þess fallnir að stunda rekstur. Staðreyndin er sú að mun heppilegra er að eignir ríkisins á borð við bankana verði seldar þegar í stað og nýjum eigendum falið að bæta reksturinn og auka hagnað.

Því miður er þetta ekki eina dæmið um forsjárhyggju Finns. Hann hefur verið ötull við að dreifa skattfé til nýrra fyrirtækja sem hann telur að muni standa sig í framtíðinni (VÞ ætlar honum að minnsta kosti ekki að annarlegar ástæður búi að baki, svo hann hlýtur að álíta að fyrirtækin séu líkleg til afreka). Gallinn er bara sá að Finnur Ingólfsson er alls ekki heppilegasti aðilinn til að velja hvaða fjárfestingarhugmynd á að fá fjármagn og hver á að vera án þess. Markaðurinn er betur til þess fallinn að koma fjármagni til þeirra sem líklegastir eru til að nýta það vel, hversu velviljaður sem Finnur annars kann að vera. Hugmyndir um yfirburði stjórnmálamanna til að dreifa fjármagni ættu að vera löngu komnar út í kuldann, en virðast þó lifa góðu lífi í viðskiptaráðuneytinu.

Undanfarin ár hafa allnokkrir Íslendingar sótt vikulöng sumarnámskeið fyrir ungt fólk hjá Institute for Humane Studies við George Mason háskóla í Bandaríkjunum.  Þeir sem farið hafa eru einróma um að það sé vel þess virði fyrir áhugamenn um stjórnmál að kaupa  flugmiða til Bandaríkjanna og eyða einni  viku í hópi áhugasamra nemenda og eftirminnilegra fyrirlesara. En IHS sér um fæði, gistingu og lesefni fyrir nemendur á meðan námskeiðum stendur. Þeir sem hafa hug á að sækja þessi námskeið í sumar ættu sem fyrst að huga að umsóknum en allar upplýsingar eru á heimasíðu IHS.