Mánudagur 26. janúar 1998

26. tbl. 2. árg.

Fidel Castro og páfi eiga ekki margt sameiginlegt. Í tengslum við heimsókn páfa til draumaríkis síðustu vinstri mannanna, Kúbu, hefur þó komið í ljós að þeir eru sammála um að gera þurfi breytingar á viðskiptabanni Bandaríkjanna á Kúbu, eins og páfi mun hafa orðað það. Ástæðurnar sem að baki búa eru þó vonandi ekki hinar sömu. Aldraði byltingaforinginn vonast vafalaust til að afnám viðskiptabannsins verði til þess að „draumaríkið“ verði að veruleika, en páfi vonar líklega að lífskjör muni batna og staða almennings gagnvart Castro muni styrkjast. Þá geti hin raunverulega bylting orðið á þessari ágætu eyju og einstaklingsfrelsi, lýðræði og mannréttindi verði einhvers virði.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í fyrradag er sagt frá skoðunum bandarísks hagfræðings, Roberts Reichs, sem heldur því fram að verðbólga sé ekki lengur áhyggjuefni. Hann telur að nú stöndum við frekar frammi fyrir því að verðhjöðnun sé að verða vandamál og í kjölfar hennar kunni að koma meiri háttar kreppa.

Þennan sama dag var Milton Friedman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, í viðtali á CNN, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að afar auðvelt væri að koma í veg fyrir kreppu með því einfaldlega að prenta peninga. Hann mælir hins vegar ekki með þessu og er ekki þeirrar skoðunar að verðhjöðnun sé að verða vandamál og lýsti yfir miklu trausti á Alan Greenspan, seðlabankastjóra Bandaríkjanna.

Enn annað sjónarhorn er að finna í bók Marks Skousens hagfræðings, Economics on Trial, þar sem hann tekur fyrir og gagnrýnir margt í umfjöllun vinsælla kennslubóka í hagfræði. Hann heldur því fram að þeir hagfræðingar sem beita hefðbundnum greiningaraðferðum geti ekki spáð fyrir um kreppu. Hann segir m. a. að það peningakerfi sem við búum við í dag, þar sem ekki er byggt á vörufæti og ríkið getur í raun prentað að vild, sé afar óstöðugt.

Eins og lesendur hafa tekið eftir hefur hér verið sagt frá þegar frambjóðendur í prófkjörum hafa sett upp heimasíður til að kynna sig. Sú nýjasta er heimasíða Ármanns Kr. Ólafssonar. Hann er aðstoðarmaður Halldórs Blöndals og sat í stjórn SUS fyrir Norðurland-Eystra þar til í fyrra, en býður sig nú fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi.

VÞ hefur borist lesendabréf vegna umfjöllunar um óbeinar reykingar frá 21. þessa mánaðar.