Ferskustu pólitísku skrifin í Mogganum í gær – svo ótrúlegt sem það kann að virðast – var að finna í umfjöllun Margeirs Péturssonar um skáklistina. Þar kom fram að ólíkt því sem verið hefði undanfarin ár neitaði RÚV nú að sýna úrslit atskákmóts Íslands. Fram kemur í pistlinum að afar lítið sé fjallað um skák í RÚV og hún sé í ónáð þar á bæ. Og Margeir kemur með hárrétta athugasemd í þessu sambandi: Það er auðvitað mjög súrt í brotið fyrir okkur skákáhugamenn ef við þurfum að kaupa áskrift að annarri sjónvarpsstöð, án þess að geta sparað á móti með því að segja RÚV upp. Stjórnarmenn í Skáksambandinu eru ekki öfundsverðir þegar svo öflug ríkisstofnun vinnur svo ötullega gegn þeim í baráttunni um athygli almennings. VÞ hvetur menntamálaráðherra til að hlusta á þessi skilaboð og gera þær breytingar sem þarf til að fólk sé ekki neytt til að greiða fyrir þjónustu sem það hefur engan áhuga á að nota.
Félag vörubílsstjóra hefur að undanförnu kvartað yfir að einyrkjar í vörubílaakstri séu að missa verkefni til stærri aðila. Hafa þeir aðallega nefnt tvær ástæður fyrir þessari þróun og eru þær afar ólíks eðlis. Önnur er að Eimskip og Samskip séu að hirða öll viðskipti vegna þess að sjóflutningar séu undanþegnir virðisaukaskatti, en hin er að aukin útboð hins opinbera geri það að verkum að litlir aðilar úti á landi, sem áður hafi setið einir að verkum í sinni sveit, eigi nú erfitt með að fá þau. Fyrri umkvörtunin á fullan rétt á sér því óeðlilegt er að sumt sé undanþegið virðisaukaskatti en annað ekki. Hið síðara, að sparnaður hins opinbera komi illa við einyrkjana, er fráleit ástæða fyrir aðgerðum hins opinbera. Standist einyrki ekki samkeppni við stærri rekstrareiningu þýðir ekkert að hlaupa í fjölmiðla og heimta aukin ríkisafskipti sem bæta stöðu hans.
Ein af þeim lausnum sem framkvæmdastjóri félags vörubílstjóra nefndi vegna ofangreinds vanda var að gera aðgang að stétt vörubílsstjóra erfiðari, ef til vill með löggildingu starfsheitisins! Í dag er það svo að til að fá að keyra bíl af þeirri stærð sem um ræðir þarf aukin ökuréttindi, svo kallað meirapróf, og þykir ýmsum nóg um þá hindrun sem þær kröfur eru. Til að fá þessi réttindi þarf að sitja langt námskeið í hinu og þessu sem sumt kemur akstri stórrar bifreiðar ekkert við og má því segja að þar sé nú þegar um óþarfa hindrun að ræða. Hugmyndir um að auka þessar hömlur til að fækka í greininni og treysta stöðu þeirra sem fyrir eru á kostnað kaupenda þjónustunnar eru að engu hafandi.