Miðvikudagur 21. janúar 1998

21. tbl. 2. árg.

Víkverji Morgunblaðsins virðist stundum vera heldur önuglyndur. Ekki bætir úr skák þegar sjálfumgleðin nær tökum á honum, eins og kom fram í blaðinu ígær. Þar er þessi dálkahöfundur að setja ofaní við breska tímaritið The Economist, sem í áramótahefti sínu gerði ofstæki ýmissa andstæðinga reykinga að umfjöllunarefni. Helst er að skilja á Víkverja, að reykingar séu svo hættulegar, að ekki geti verið um neitt ofstæki að ræða í andstöðunni við þær. Öllum meðulum megi beita til að berjast gegn þeim.

Þetta er að sjálfsögðu misskilningur. Læknar munu almennt sammála um að reykingar geti valdið reykingamönnum margvíslegu heilsutjóni og jafnvel dregið þá til dauða. Ekki er jafn mikil samstaða um kenningar um skaðsemi óbeinna reykinga, en þó mun meirihluti vísindamanna vera þeirrar skoðunar að þær geti valdið skaða. Það er því eðlilegt að upplýsa almenning um þessa skaðsemi og full ástæða virðist t.d. til að vara börn og unglinga við tóbaksneyslu. En þrátt fyrir að menn séu sammála um hættur tengdar reykingum er ekki þar með sagt að réttlætanlegt sé að gera hvað sem er til að meina fullorðnu fólki að reykja. Í þeim efnum hefur komið fram mikið ofstæki hjá ýmsum tóbaksandstæðingum og er nýleg löggjöf í Kaliforníu dæmi þar um. Hér á landi birtist þetta sama ofstæki í því viðhorfi, að hækka beri skatta á tóbak upp úr öllu valdi til að draga úr reykingum.

Ofstæki af þessu tagi ber að varast, jafnvel þótt reykingar séu hættulegar. Það er ómögulegt að banna að allar athafnir eða neyslu, sem valdið getur heilsutjóni. Engum nema ofstækisfyllstu stúkumönnum dettur í hug að banna áfengi, þrátt fyrir fjölmörg dæmi um heilsutjón af þess völdum og jafnvel þótt fjöldi líkamsárása og slysa verði vegna ofneyslu áfengis (þekkja menn dæmi um að menn hafi framið líkamsárás eða valdið umferðarslysi „undir áhrifum tóbaks“?). Óhollt mataræði veldur heilsutjóni hjá mörgum og hafa verið færðar fram alveg jafn sterkar sannanir fyrir tengslum milli mataræðis og ákveðinna sjúkdóma og milli reykinga og sjúkdóma. Á hið opinbera að banna tilteknar matvörur eða gefa út fyrirskipanir um að mataræði hvers og eins eigi að vera með einhverjum tilteknum hætti? Á hið opinbera að fyrirskipa borgurunum að stunda líkamsrækt í ákveðnum mæli vegna þess að sannað þykir að góð hreyfing bæti heilsuna?

Flestum ætti að vera ljóst að hið opinbera getur ekki endalaust gengið inn á svið einkalífs manna með þessum hætti. Sama má segja um reykingar. Á sama hátt og það er eðlilegt að reykingamenn sýni reyklausu fólki tillitssemi, t.d. á vinnustöðum og ýmsum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, er engin hemja að hinir reyklausu þrengi kosti reykingamanna endalaust. Dæmið frá Kaliforníu ætti að vera víti til varnaðar. Samkvæmt lögum þess fylkis er óheimilt að leyfa reykingar inni á veitingastað, jafnvel þótt allir gestirnir, starfsmennirnir og eigandinn séu reykingamenn, og vilji allir af fúsum og frjálsum vilja dvelja þar inni. Löggjöf sem gengur svona langt verður að sjálfsögðu óframkvæmanleg og því að öllum líkindum að engu höfð.