Þriðjudagur 20. janúar 1998

20. tbl. 2. árg.

Í ár eru 60 ár frá því Alþingi samþykkti lög um heimild til ríkisrekstrar á útvarpi. Í ár eru einnig 20 ár frá því Vilhjálmur Hjálmarsson, þáverandi menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að ferlíkinu sem nefnt er útvarpshúsið í dag. Útvarpshúsið verður komandi kynslóðum vafalítið minnismerki um hvílíka sóun ríkisrekstur hefur í för með sér. Núverandi menntamálaráðherra hefur tækifæri til að draga út þessari sóun með því að selja Ríkissjónvarpið sem enn hefur aðsetur utan útvarpshússins. Hætt er við að örðugra verði að skilja sjónvarpið frá hljóðrásum RÚV eftir að allt hefur verið sameinað undir einu þaki.

Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að það voru einkaaðilar sem hófu útvarpsrekstur á Íslandi árið 1926. Ekki voru allir jafnhrifnir af því frjálsa framtaki og sagði Jónas Jónsson frá Hriflu síðar um þetta brautryðjendastarf: „Sú rödd náði rétt út fyrir bæinn og átti að verða gróðavegur fyrir fjárbrallsmenn. Þessi tilraun var átak hinna menningarlausu um mál sem þeir réðu ekki við.“ Þetta hrokafulla viðhorf Jónasar endurómaði í þeim umræðum sem fóru fram á áttunda og níunda áratugnum um hvort einstaklingum væri virkilega treystandi til að reka útvarpsstöðvar. Það er auðvitað furðulegt til þess að hugsa að enn skuli sitja á þingi menn sem greiddu atkvæði gegn því að einokun Ríkisútvarpsins væri afnumin. Halldór Ásgrímsson, Svavar Gestsson og Kristín Halldórsdóttir voru í þeim fríða flokki.

Elsa B. Valsdóttir flytur pistil sinn á Rás 2 upp úr hálfníu í dag. Þeir sem missa af honum eða vilja njóta hans á ný geta fundið hann hér. En í pistlinum ræðir Elsa einkum um fréttaflutning DV og Dags-Tímans. Alla pistla Elsu á Rás 2 hingað til má svo finna hér.