Dálkurinn Sandkorn í DV vekur meiri hlátur víða um bæinn en oft áður. Það er þó ekki vegna þess að skensið sem þar birtist sé skemmtilegra en fyrr heldur vegna þess að Össur Skarphéðinsson, frjáls og óháður ritstjóri blaðsins, reynir að nota dálkinn til að koma höggi á pólítíska andstæðinga sína. Dálkurinn hefur alltaf verið skrifaður undir nafni blaðamanns en þegar Össur skrifar er hann hafður nafnlaus.
Á laugardaginn munu ýmsir aðilar standa fyrir mótmælum gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna á Írak. Viðskiptabannið orkar auðvitað mjög tvímælis enda bitnar það fyrst og fremst á almenningi en stjórnarherrarnir líða engan skort. Það verkur hins vegar athygli að ýmsir þeirra sem standa að mótmælunum eru allt annað en frægir fyrir ást sína á frjálsum viðskiptum. Þeirra á meðal er Ögmundur Jónasson. En þegar þjóð Saddams á í hlut er greinilega hægt að gera undantekningu.
Olíuverð hefur ekki verið lægra á heimsmarkaði í nokkur ár þrátt fyrir að umhverfisverndarsinnar segi okkur reglulega að olíulindir séu að ganga til þurrðar og verðið ætti því að hækka látlaust. Við getum hins vegar þakkað hrottafenginni skattheimtu ríkisins af þessum vökva af lækkunin kemur lítt fram í verði hans hérlendis. Ríkið hirðir nefnilega um 70% verðsins. Háir skattar á einkabílinn og rekstur (þ.m.t. eldsneyti) hans seinka því að menn endurnýi bíla sína eða haldi þeim við. Gamlir og illa stilltir bílar nýta eldsneyti mun verr en nýir og gefa frá sér meira af ýmsum lofttegundum sem teljast óæskilegar í alþjóðlegum kokteilpartýum um þessar mundir (nema þær stigi upp úr bjórglösum).
Þá er Guðrún Pétursdóttir komin í framboð. Er á meðan er.