Morgunblaðið birti síðastliðinn fimmtudag ítarlega opnugrein um sameiningarviðræður vinstri manna og verkalýðshreyfinguna. Tilefni þessara skrifa var ekki augljóst, enda virtist helst vera um að ræða síðbúna fréttaskýringu frá landsfundi Alþýðubandalagsins í nóvember. Tilgangurinn var samt augljóst; að sýna að forystumenn í verkalýðshreyfingunni vilji sameiningu A-flokkanna og gamlar væringar milli flokkanna skipti ekki lengur máli í því samhengi.
Í greininni eru rifjuð upp ýmis ummæli verkalýðsforingja frá því í kringum landsfund Alþýðubandalagsins, þar sem fram kom að verkalýðshreyfingin teldi sig eiga í pólitísku stríði við núverandi ríkisstjórn og að hreyfingin þyrfti að eiga sér pólitískan málsvara í einhverjum stórum, sameinuðum jafnaðarmannaflokki. Þessi ummæli lýsa afar gamaldags viðhorfi til verkalýðshreyfingarinnar, sem felur í sér að hreyfingin eigi fremur að vera pólitískt afl en faglegt. Hlutverk hennar sé ekki bara að gera hagstæða kjarasamninga fyrir umbjóðendur sína heldur að berjast fyrir einhverri tiltekinni þjóðfélagsskipan. Þótt stundum hafi verið grunnt á pólitíkinni í verkalýðshreyfingunni á undanförnum árum er langt síðan vinstri sinnaðir forystumenn þar hafa jafn augljóslega afhjúpað vilja sinn til að misnota hana í pólitískum tilgangi.
Verkalýðshreyfingunni á Íslandi hefur um langan aldur verið stjórnað af tiltölulega fámennri forystusveit, sem í áranna rás hefur komið sér upp kerfi, sem nánast útilokar áhrif almennra félagsmanna á það hverjir fara með völdin í félögunum. Miklir fjármunir hafa safnast upp hjá hreyfingunni í krafti skyldugreiðslna launþega til hennar og með þeirri aðferð, sem og með sterkum tökum á skyldubundnum lífeyrissjóðum, hafa verkalýðsforingjar orðið að nýrri stétt einhvers konar verkalýðsrekenda. Vilji þessir verkalýðsrekendur auka pólitísk áhrif sín með því að beita verkalýðshreyfingunni í pólitískum tilgangi, t.d. með beinni eða óbeinni aðild að sameiningarviðræðum á vinstri vængnum, eru þessir menn að taka mikla áhættu varðandi það kerfi sem þeir byggja völd og áhrif sín á. Verkalýðshreyfing sem stýrt er í pólitískum tilgangi hefur ekki sama trúverðugleika og fagleg stéttarfélög. Verkalýðshreyfing sem tekur pólitíska afstöðu getur ekki gert kröfu um að allir launþegar greiði til hennar fé eins og gert er í dag. Slíkt væri ósvífinn skoðanakúgun sem fær vonandi ekki staðist í frjálsu landi.
Hér ber allt að sama brunni. Með viðleitni sinni til að gera verkalýðshreyfinguna pólitíska eru forystumennirnir að veikja hana. Nái draumur þeirra um náin tengsl verkalýðshreyfingar og stórs, sameinaðs jafnaðarmannaflokks fram að ganga, geta þeir ekki vænst annars en að kröfur um raunverulegt félagafrelsi á vinnumarkaði verði hærri en nokkru sinni. Það mun væntanlega flýta því að lögbundnar skyldugreiðslur til verkalýðsfélaga verði afnumdar, forgangsréttarákvæði í kjarasamningum hverfi og réttur manna til að standa utan félaga verði í alvöru virtur hér á landi. Það er því kannski ekki svo afleitt að forystumenn vinstri manna í verkalýðshreyfingunni haldi áfram að tala eins og þeir tala um mikilvægan þátt hreyfingarinnar í sameiningu vinstri manna.