Föstudagur 12. desember 1997

346. tbl. 1. árg.

Forsætisráðherra lýsti því yfir um daginn að hann teldi fulla ástæðu til að skoða, hvort stofna bæri embætti umboðsmanns skattgreiðenda. Nefndi hann sem skýringu að algengt væri að skattborgarar teldu sig hafa orðið fyrir ofríki af hálfu skattyfirvalda og möguleikar þeirra til að verja sig væru takmarkaðir.
 
Það skiptir máli að ráðamenn átti sig á því ástandi, sem ríkir í þessum málaflokki. Ótal fyrirtæki og einstaklingar lenda á ári hverju í útistöðum við skattyfirvöld. Í sumum tilvikum stafar það af vanþekkingu skattgreiðandans á reglum, stundum er það vegna vísvitandi undanskota hans, en um það eru einnig fjölmörg dæmi að ágreiningur komi upp vegna misskilnings eða vanþekkingar starfsmanna skattsins á rekstri eða öðrum aðstæðum skattgreiðandans.
 
Hver sem rót ágreiningsins kann að vera hverju sinni eiga mál af þessu  tagi það sammerkt, að heimildir skattyfirvalda til að kalla eftir upplýsingum, ákveða einhliða tímafresti o.þ.h. eru mjög rúmar og réttarstaða skattgreiðandans gagnvart þeim er mjög veik. Starfsmenn skattyfirvalda eru misjafnir og þótt margir þeirra séu réttsýnir og  sanngjarnir þá á það ekki við um alla. Eins er alltaf hætt við að embættismenn sem fara með mikil völd telji þörf á að beita þeim af fullri hörku til að koma í veg fyrir lögbrot. Slík viðhorf geta leitt til þess að menn fari offari, jafnvel þótt þeir séu ekki nein sérstök  fúlmenni.
 
Vegna þessa er yfirlýsing forsætisráðherra tímabær og opnar fyrir mjög mikilvæga umræðu um vinnubrögð í skattkerfinu. Viðbrögð ákveðinna embættismanna í skattkerfinu, svo sem ríkisskattstjóra, eru hins vegar sérkennileg. Í stað þess að lýsa því yfir að menn innan skattkerfisins hljóti alltaf að reyna að bæta sig þá bregst hann við með því að vísa gagnrýninni alfarið á bug og gera lítið úr málflutningi gagnrýnenda. Þessi viðbrögð hans eru á margan hátt dæmigerð fyrir valdhroka sem enn finnst alltof víða í skattkerfinu.