Fimmtudagur 11. desember 1997

345. tbl. 1. árg.

Nokkuð hefur verið rætt um græna skatta að undanförnu og telja margir að þar sé komin ný matarhola fyrir ríkisvaldið. Morgnublaðið hefur auðvitað tekið þennan skatt upp á arma sína eins og aðrar nýjar hugmyndir um skattheimtu sbr.  veiðileyfaskatt. T.d. hefur heyrst að leggja eigi grænan skatt á útblástur  koltvísýrings sem gæti valdið auknum gróðurhúsaáhrifum sem gæti leitt til hlýnunar á jörðinni en það gæti víst verið slæmt.. Þessi skattur myndi einkum leggjast á eldsneyti en ríkið hirðir nú þegar 60 krónur af hverjum 80 sem menn greiða fyrir bensínlítrann. Nokkrar krónur til viðbótar í grænan skatt breyta því vart miklu um notkun. Hins vegar mætti gjarna  taka svona 50 krónur af skattinum sem þegar er lagður á bensín og kalla grænan skatt – þ.e. ef menn verða tilbúnir til að leggja  hann niður þegar í ljós kemur að heimsendaspá fylgismanna gróðurhúsaguðsins er jafnvafasöm og allar aðrar heimsendaspár umhverfisverndarsinna hafa reynst hingað til.

Í bók sinni Söngur lýðveldis segir Indriði G. Þorsteinsson það vera merki um slappa stjórnarandstöðu þegar það eina sem stjórnarandstæðingar hafa gegn ríkisstjórn sé að ríkisstjórnin sé leiðinleg. Þetta er einmitt það sem Össur Skarphéðinsson og fleiri stjórnarandstæðingar hafa helst haft gegn ríkisstjórninni síðustu misserin.
Þá er það stundum sagt í íþróttafréttum að menn leiki ekki betur en andstæðingurinn gefi mönnum svigrúm til. Þetta ætti stjórnarandstaðan á Alþingi að hugleiða áður en hún geispar golunni endanlega yfir eigin leiðindum og slappleika.