Helgarsprokið 7. desember 1997

341. tbl. 1. árg.

Ýmsir embættismenn í skattkerfinu hafa að undanförnu farið mikinn í fjölmiðlum og lýst því hvernig stóraukið skatteftirlit hafi leitt til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Hefur mátt á þeim skilja, að hver króna sem varið er í skatteftirlit skili sér margfalt til baka með bættri innheimtu og skattskilum. Er þetta að ýmsu leyti svipaður málflutningur og ýmsir stjórnmálamenn og aðrir lýðskrumarar hafa haft uppi á undanförnum árum, þ.e. að með stórauknu eftirliti og harðari refsingum við skattalagabrotum megi auka tekjur ríkissjóðs um milljarða króna á hverju ári.

Málflutningur af þessu tagi getur verið meira en lítið varasamur. Ekki skal úr því dregið að meðan skattheimta er talin nauðsynleg til að standa undir tiltekinni starfsemi hins opinbera er eðlilegt og rétt að allir fylgi settum reglum og sæti viðurlögum ef þeir eru staðnir að því að koma sér hjá því. Slíkt er fylgifiskur þess að ríkisvaldið haldi uppi einhverri starfsemi. Hins vegar er hvorki eðlilegt né skynsamlegt að halda því fram, að sífellt aukið eftirlit og hertar refsingar skili sér til baka til ríkissjóðs í réttum hlutföllum.

Í því samhengi er rétt að hugleiða eftirfarandi atriði:

1) Skattaeftirlit er ekki aðeins kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð. Aðgerðir af hálfu skattaeftirlitsmanna kosta einstaklinga og fyrirtæki  (sem fyrir eftirlitinu verða) oft á tíðum mikinn tíma og fyrirhöfn (og tíminn er peningar). Skattborgararnir þurfa oft að kaupa sér sérfræðiaðstoð endurskoðenda og lögmanna til að svara aðgerðum skattkerfisins og jafnvel að verja sig atlögum úr þeirri átt. Hert skattaeftirlit getur þannig leitt til margfalt meiri kostnaðar úti í þjóðfélaginu heldur en fram kemur í skilgreindum fjárveitingum á fjárlögum sem fara í að standa straum af eftirlitinu. Um þetta eru fjölmörg dæmi á undanförnum árum og í því ljósi ber að taka yfirlýsingum forsvarsmanna skattyfirvalda með talsverðum fyrirvörum.

2) Þær tölur, sem talsmenn skattyfirvalda láta hafa eftir sér í sambandi við bættan árangur í innheimtu, eru oft ófullkomnar. Þær byggja yfirleitt á endurálagningu í kjölfar eftirlits, en ekki er í þeim tekið tillit til þess hversu hátt hlutfall mála af þessu tagi eru kærð til yfirskattanefndar og fara síðan fyrir dómstóla. Talsverður hluti ágreiningsmála milli skattborgara og skattyfirvalda endar þeim fyrrnefndu í vil. Það þýðir að sjálfsögðu að skatteftirlitið skilar þegar upp er staðið mun minni árangri, mælt í krónum og aurum, heldur en talsmenn skattsins halda stundum fram.

3) Heimildir skattyfirvalda til að kalla eftir upplýsingum frá borgurunum (einstaklingum og fyrirtækjum) eru ríkar og sama á við um heimildir þeirra til að afla upplýsinga um þá frá þriðja aðila. Mikið ójafnræði er milli skattborgara og skattyfirvalda ef til ágreinings kemur og kostar það borgarana oft margra ára málaferli fyrir dómstólum að rétta hlut sinn í samskiptum við þau. Af þessu leiðir að skattyfirvöld verða að fara varlega með vald sitt og gæta vel að því að ganga ekki á grundvallarrétt þeirra, sem eftirlit þeirra beinist að. Sífellt tal um aukið og nákvæmara eftirlit og harðari refsingar, sérstök eftirlitsátök og rassíur, eykur hættuna á því að skattyfirvöld eða einstakir starfsmenn þeirra fari offari í störfum sínum. Eftirlit með skattskilum er nauðsynlegt en í því sambandi þarf sérstaklega að huga að hófs sé gætt, svo ekki ríki andrúmsloft lögregluríkisins í landinu.

4) Reynslan sýnir, að eðlilegasta og árangursríkasta leiðin til að draga úr skattsvikum er ekki að stofna fjölmennar eftirlitssveitir og dæma þá sem ekki fara að lögum til þungra refsinga. Leiðin er þvert á móti sú að lækka skatthlutföll, draga úr undanþágum og stuðla að jafnræði í skattkerfinu. Ef skattar eru háir er eykst freistingin að stinga undan skatti. Ef skattar eru háir er auðveldara fyrir menn að réttlæta undanskot, bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Því lægri og jafnari sem skattar eru, þeim mun líklegra er að fólk fylgi skattalögunum. Fólk fylgir frekar reglum sem því finnst sanngjarnar en óréttlátum reglum.

Í ljósi þess sem hér að framan greinir ættu talsmenn skattyfirvalda fremur að berjast fyrir lækkun skatta og einfaldari og réttlátari skattareglum heldur en að koma fram í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum með kröfur um aukin fjárframlög til eftirlitsstarfsemi sinnar.