Oddur Ólafsson blaðamaður skrifar grein í Dag á föstudaginn um það sem hann kallar nýjar lausnir í málefnum aldraðra. Ekki er ástæða til að fjalla um grein Odds eða tillögur að öðru leyti en því, að í upphafi greinar kemur fram stórfurðulegt viðhorf til erfðaskatta. Oddur kvartar sáran yfir því að hér á landi séu erfðaskattar lágir miðað við það sem tíðkast annars staðar og …stærri og minni eignir og verðmæti ganga á milli kynslóða án þess að lögerfingjar greiði nema lága prósentu af þeim auði sem þeim fellur í skaut. Síðar kvartar hann svo aftur yfir því ástandi að …eignir sem falla mönnum fyrirhafnarlaust í skaut, stundum mjög miklar, eru að mestu leyti látnar í friði af þeim, sem ávallt eru að sanka saman fjármunum til sameiginlegra þarfa.
Hér er um sérkennilegt sjónarmið að ræða. Að mati flestra réttsýnna manna eru erfðaskattar einhverjir ógeðfelldustu skattar sem um getur. Með þeim gerir ríkið dauðsföll einstaklinga sér að féþúfu og hrifsar til sín hluta þess sem hinn látni lætur eftir sig. Þá er um að ræða margfalda skattlagningu, því eignir sem erfast hafa að sjálfsögðu verið skattlagðar áður hjá hinum látna með eignarsköttum, fasteignagjaldi, fjármagnstekjuskatti og svo má lengi telja. Eignirnar hafa svo myndast vegna þess að hinn látni hefur með einum eða öðrum hætti aflað sér tekna, sem hann hefur væntanlega verið látinn borga tekjuskatt af. Erfinginn þarf einnig af greiða skatta af eignunum þegar hann hefur tekið við þeim. Því er það sérkennilegt að það skuli talin einhver sérstök þörf á að skattleggja sérstaklega eignatilfærsluna milli arfleifanda og erfingja, ekki síst í ljósi þess að sú eignatilfærsla á sér langoftast stað milli náinna ættingja. Miklu nær væri að taka upp í alvöru umræðuna um það, hvort ekki ætti að fella niður erfðaskatta þannig að skattheimtumenn ríkisins hætti að vaka yfir dauðsföllum í landinu eins og hrægammar.
Það hefur vakið nokkra athygli að undanförnu að R-listinn sem stjórnar Reykjavíkurborg virðist ekki vera til nema í hugum manna. Hvorki er hægt að hafa samband við R-listann símleiðis né senda honum línu. Eitt meginkosningaloforð listans mun hafa verið að gera borgina opna og lýðræðislega.
Samtök að nafni Náttúruverndarsamtök Íslands hafa verið nokkuð áberandi síðustu misseri og fulltrúar þeirra mæta reglulega í fjölmiðla og tala þar eins og þeir séu fulltrúar fjöldasamtaka enda bendir nafnið til að hér sé um fjölmenn landssamtök á borð við Neytendasamtökin. Það er þó hvorki hægt að hringja í þessi samtök né senda þeim línu.