Halldór Blöndal samgönguráðherra hefur látið hafa það eftir sér að stefna beri að sölu á hlutabréfum ríkisins í Landsíma Íslands hf., sem stofnaður verður eftir áramót uppúr fjarskiptahluta Pósts og síma hf. Síðast kom ráðherra inn á þetta á fjölmennum fundi Heimdallar á þriðjudagskvöld.Ástæða er til að lýsa sérstakri ánægju með að ráðherra skuli með svo afgerandi hætti stefna að einkavæðingu Landsímans og vonandi fylgir pósthlutinn, Íslandspóstur hf. í kjölfarið. Breytingar á rekstrarformi Pósts og síma hafa ekki gengið átakalaust fyrir sig og fyrirtækinu hefur á margan hátt gengið illa að fóta sig í nýju umhverfi samkeppni og markaðslögmála. Segja má að P&S hafi að því leyti verið eins og fíll í postulínsverslun.
Besta leiðin til að komast hjá þeim átökum og núningi fyrirtækisins við samkeppnisaðila og viðskiptavini, sem orðið hefur vart við á undanförnum misserum, er að algerlega verði slitið á tengsl þess við ríkisvaldið og að einkaréttur þess á tilteknum sviðum (sem reyndar fer mjög fækkandi) verði afnuminn. Meðan samkeppnisaðilar eru að fóta sig á markaðnum er svo nauðsynlegt að hlutlaus en öflugur eftirlitsaðili gæti þess að það misnoti ekki markaðsráðandi stöðu sína og gríðarlegar eignir, sem byggst hafa upp með ríkiseinokun í áratugi. Markmiðið hlýtur hins vegar að vera að samkeppni nái þeim þroska að eftirlitsaðilinn verði með tímanum óþarfur.
Allir fjölmiðlar nema DV virðast hafa fjallað um fund Heimdallar þar sem samgönguráðherra lét fyrrgreind ummæli falla. Við skulum vona að þetta fréttabann DV á Heimdalli tengist ekki komu Össurar Skarphéðinssonar á blaðið. Ekki frekar en „fréttin“ á baksíðu DV, nokkrum dögum eftir að Össur hóf þar störf, af GSM síma sem hinn félaginn í Grósku hafði týnt.
Hinn stórgóði tónlistarmaður Leonard Cohen gerðist Búdda-munkur fyrir nokkru og hefur búið í Zen-hofi í rúmlega 2000 metra hæð í fjöllum Kaliforníu s.l. fjögur ár. Sakna þess margir að fá ekki að njóta nýrrar tónlistar frá honum en vona að hann hverfi aftur til fyrra lífernis innan skamms, enda hefur hann ekki útilokað slíkt. Annar ágætur tónlistarmaður hvarf af sjónarsviðinu fyrir um 20 árum,tók Islamstrú og nefnir sig nú Jusulf Islam (áður Cat Stevens). Sá er nú fyrst að senda aftur frá sér plötu og verður gaman að heyra hvort hann hefur haft gott af hvíldinni og slær í gegn að nýju.
Þetta fær menn óneitanlega til að leiða hugann að því hvort sumir íslenskir tónlistarmenn, sem í gegnum tíðina hafa stundum gert góða hluti, ættu kannske að taka sér nokkurra ára(tuga) hvíld. Þannig hefur Bubbi Morthens t.a.m. gert fátt frjótt á þessum áratug og virðist enn vera að fatast flugið ef marka má þau lög af nýju plötunni hans sem leikin hafa verið í útvarpi. Ef til vill hefði Bubbi líkt og Leonard Cohen og Jusulf Islam gott af smá hvíld, enda varla hægt að ætlast til að menn geti sent frá sér nothæfar plötur ár eftir ár, áratugum saman. En Bubbi þarf svo sem ekki endilega að fara í klaustur, honum gæti nægt að einbeita sér að hnefaleikunum og fá innblástur í hringnum í nokkur ár.
Alþýðuflokkurinn hefur sett upp heimasíðu með upplýsingum um starfsemi flokksins. Flokkarnir hafa þá allir ákveðið að rétt sé að verja hluta útgáfustyrksins frá skattgreiðendum í heimasíður.