Helgarsprokið 19. október 1997

292. tbl. 1. árg.
Mikið hefur verið rætt um friðhelgi einkalífsins að undanförnu og er eins og mörgum sýnist að netið sé einhver sérstakur bölvaldur í þeim efnum. Það er vissulega rétt að netið er hægt að misnota og sérstaklega er hætt við að tölvuþrjótar getið valdi usla með því að brjótast inn í tölvur annarra. Mönnum væri þó nær að beina sjónum að öðrum þrjót sem er iðinn við að safna upplýsingum um einkahagi fólks og skrásetja þær, en það er ríkið, eða það sem stundum er kallað hið opinbera og sem stundum mætti ætla að hefði það að aðal starfi að opinbera upplýsingar um einkamál fólks. Þannig t.a.m. safnar ríkið saman upplýsingum um tekjur manna og gerir þær upplýsingar opinberar til að fjölmiðlar geti matað öfundsjúka lesendur á velgengni náungans. Ríkið tekur einnig saman og skrásetur upplýsingar um heilsufar fólks, þó svo upplýsingar eigi vitanlega einungis að vera á milli sjúklings og læknis.

Ríkisafskiptasinnar réttlæta þessa upplýsingasöfnun með því að ríkinu sé nauðsynlegt að safna þessum upplýsingum til að geta rækt hlutverk sitt. Það kann að vera að ríkinu sé nauðsynlegt að safna þessum upplýsingum til að geta rækt það hlutverk sem það hefur með höndum  í dag, en hlutverk ríkisins er orðið alltof víðfeðmt og ef það sinnti einungis því sem það ætti að sinna að þá þyrfti það ekki nema brot af þeim upplýsingum sem það safnar í dag.

Tökum tekjuskatt sem dæmi. Tekjuskattur er alltof hár, hann er vinnuletjandi, grefur undan virðingu manna fyrir lögum það sem fólki finnst hann almennt óréttlátur og ekkert athugavert við að skjóta sér undan honum. Tekjuskattur grefur einnig undan frjálsum framlögum til lista, menningar og líknarmálum. Það viðhorf fer að verða æ algengara að einstaklingar þurfi ekki að láta fé af hendi rakna þar sem að ríkið sjái hvort eð er um viðkomandi málaflokk. Það segir sig líka sjálft að því minna sem að fólk heldur eftir af því sem það vinnur sér inn að því minna getur það varið til þess sem því er virkilega annt um. Síðan eru minni framlög til þessara flokka notuð sem réttlæting þess að ríkið seilist dýpra í vasa skattborgaranna! Tekjuskatturinn eins og hann er í dag er líka orðinn svo flókinn þaaar sem hann er farinn að taka mið af æ persónulegri þáttum – hjúskaparstöðu, íbúð, sparnaði o.s.frv. Afleiðingin af þessu er að ríkið er farið að safna og birta æ persónulegri upplýsingar um hagi fólks, og það er ekki nóg með að ríkið safni þessum upplýsingum, heldur birtir það þær líka og hvetur fólk til að njósna um náungann. Ríkið er því að ýta undir og nýtir sér löst sem öll siðuð þjóðfélög ættu að reyna að bæla niður – öfundina.

Eftir því sem ríkið sölsar undir sig æ fleiri málaflokka og drepur enn frekar í Dróma framtak einstaklinganna þá felur netið í sér möguleika á valkosti. Með betri tölvusamskptum opnast möguleikar á því að menn stofni fyrirtæki í skattaparadís t.a.m. á Bahamaeyjum taki að sér verkefni einhversstaðar erlendis, vinni þau í stofu sinni hér á Íslandi, og fái greitt fyrir þau inn á reikning sinn í skattaparadísinni og séu síðan með kreditkort á reikning sinn þar. Þannig verður alltof flókið fyrir ríkið að fylgjast með tekjum manna og þá er möguleiki á að það hætti innheimtu og verði að finna sér aðra leið til að fjármagna eyðslu sína.

Við minnum á Náttfara sem kemur út á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum. Hann er frábær búbót fyrir netbúa.