293. tbl. 1. árg.
Þetta er ánægjuefni. Ekki er nóg með að dómstólar hafi hrundið banninu við áfengisauglýsingum á grundvelli stjórnarskrár heldur segir dómsmálaráðherra að ekki séu nein áform uppi um að gera aðra tilraun til að setja lög sem takmarka áfengisauglýsingar. Með öðrum orðum er búið að leyfa áfengisauglýsingar og engin áform eru uppi um að banna þær.
Í þessu sambandi má geta þess að Svíar hafa verið þrjóskast við að halda banni við áfengisauglýsingum. Þetta hefur leitt til þess að sænskar sjónvarpsstöðvar hafa flutt til Bretlands þaðan sem þær senda út um gervitungl til sænskra áhorfenda og að sjálfsögðu eru áfengisauglýsingar milli dagskrárliða. Það sama gæti gerst hér ef við hefðum ekki stjórnarskrá sem verndar okkur fyrir ólögum og dómsmálaráðherra sem gerir ekki ítrekaðar tilraunir til að banna hluti sem vonlaust og tilgangslaust er að banna.