Hafa verður forsögu málsins til hliðsjónar. Hvað gerðist þegar kreppan skall á? Fyrst og fremst voru skattar hækkaðir og lántökur auknar. Niðurskurður í velferðarkerfinu var afar takmarkaður, sem sést best á því að samneysla hér á landi er meiri en þekkist víðast hvar erlendis. Það að fá ekki einhverja vöru eða þjónustu sem þig langar í, en hvorki þú sjálfur né samfélagið hafið efni á að kaupa, kallast ekki að bera byrðar. Samt sem áður eru megin rök hagsmunahópanna á þá leið að þeir eigi eitt og annað „inni“ hjá öðrum skattgreiðendum! Sömu skattgreiðendum og hafa mátt þola endalausar skerðingar á ráðstöfunarfé sínu.
Ríkisstjórnin hefur engin efni á að auka útgjöld. Til að byrja með þarf hún að lækka þá skatta sem hafa verið hækkaðir á undanförnum árum. Sú lækkun sem kynnt hefur verið er einungis örlítið skref til baka. Til dæmis var tekjuskattshlutfallið 35,2% í ársbyrjun 1988 og hinn tímabundni hátekjuskattur, sem lagður var á árið 1992, hefur nú verið lögfestur og hækkaður úr 5% í 7%. Síðan þarf ríkisstjórnin að greiða til baka þau lán sem hún hefur tekið á undanförnum árum. Ljóst er að ríkisútgjöld þurfa að lækka um nokkra tugi milljarða til að við séum í sömu sporum og við upphaf kreppunnar. Hagtölur hér á landi eru nú með besta móti. Þannig að ef skuldir verða ekki greiddar núna og skattar lækkaðir, hvenær þá?
Annað sem ætti að valda mönnum áhyggjum, en góðæristalið virðist yfirgnæfa, er að sá hagvöxtur sem nú ríkir er ekki byggður á varanlegum grunni. Alltof lítið hefur verið gert til að styrkja stoðir atvinnulífsins. Ef hér mun ekkert færast í frjálsræðisátt, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af að finna ekki góðærið þegar tímabundnum stóriðjuframkvæmdum er lokið, Flugleiðir munu taka okkur út í heim, þangað sem það verður að finna.